31.07.1914
Efri deild: 26. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (1883)

31. mál, þingsköp Alþingis

Júlíus Havsteen:

Það eru nú næstum því 10 ár síðan að þau þingskapalög voru sett, sem nú gilda. Þá gekk svo fyrir því máli hjer á þingi, að hv. Nd. lá á því mestallan þingtímann, svo að þing átti eftir að standa eina 4 daga, þegar það kom hingað upp í deildina. Ed. hafði því helst til skamman tíma til þess að athuga málið svo sem skyldi. Mjer finst, að nokkuð líkt standi á nú. Frv. þetta er flutt inn á aukaþing, þar sem stórmál eru fyrir höndum, sem það beinlínis er kallað saman til þess að ráða fram úr. Jeg veit ekki, hvað háttv. flutnm. þessa frv. getur gengið til þess að hraða sjer svo. Það sýnist þó svo, að þetta frv. hefði mátt bíða til næsta reglulegs Alþingis. — Þar að auki vil jeg leyfa mjer að benda á, að í þessu frv. kemur fram nýtt princip. Alþingi er hjer gjört að undirlægju stjórnarráðsins, þar sem forsetar þingsins eru sviftir heimild til þess að ávísa fje á milli þinga. Þeir eiga að eins að hafa heimild til þess, meðan þing situr, en svo ekki lengur. Þetta ákvæði getur líka snert varaforseta þingsins (Hákon Kristófersson: Og ef til vill ekki alveg að ástæðulausu!) Jeg skal ekki fara frekar út í þessa sálma en mjer virðist það liggja í augum uppi, að forsetarnir eigi að hafa rjett til þess að ávísa einnig milli þinga. — Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en mjer virðist sjálfsagt, að nefnd sje skipuð til þess að rannsaka það, því að það þarf sannarlega íhugunar við.