10.08.1914
Efri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (1888)

31. mál, þingsköp Alþingis

Kristinn Daníelsson:

Jeg get sagt það sama og fleiri um þetta mál. Mjer fanst háttv. framsögumaður (G. B.) gefa að mörgu leyti góðar bendingar í sinni ræðu, en yfir höfuð þótti mjer hann ganga nokkuð langt í því að vilja takmarka frelsi manna með þingsköpunum.

Mjer fanst hv. framsögumaður finna að því, að í fjárlögunum hafa útgjöldin vaxið nærri því við hverja meðferð. Þetta virðist mjer ofureðlilegt. Það er ekki von, að við 1. umræðu geti komið fram allar þær bendingar, sem þarf að taka til greina, og eftir því sem fjárlögin eru oftar höfð til meðferðar, því betri upplýsingar fást. Oft er allur fjöldinn af því, sem skorið er niður, nauðsynjamál, og þingmönnum er oft afarnauðugt að greiða atkvæði móti nauðsynlegum fjárveitingum, þótt þeir verði að gjöra það vegna fjárhags landsins.

Þar sem háttv. framsögumaður hjelt því fram, að nauðsynlegt væri, að ekki ætti bera upp aftur atriði, sem hefði verið felt, þá er jeg ekki á sama máli og hann. Skal jeg nefna til dæmis, að ef beðið er um fjárveitingu til einhverrar brúar, en þingið fellir fjárveitinguna, af því að því þykir hún of há, þá er aðalatriðið þetta, að þingið vilji styrkja málið, en ekki svona mikið. Og hví skyldi þá ekki viðkomandi hjerað mega koma með nýtt tilboð til Alþingis. Sama máli gegnir um það, er hann vildi takmarka rjett þingmanna til þess að láta vera að greiða atkvæði.

Það finst mjer of mikil takmörkun á frelsi manna, sem hann stakk upp á. Jeg veit, að hv. 6. kgk. (G. B.) ætlar mjer það ekki, að jeg vilji styðja að lagabrotum, en jeg vil láta þingmenn hafa fult frelsi til rjettra athafna.

Jeg býst við, að mjer leyfist eins og öðrum að tala um drátt málanna, sem háttv. þingm. Ísfirðinga (S. St.) gjörði að umræðuefni. Jeg get verið honum samdóma um það, að rjett sje að koma fram með bendingar um það, sem aflaga fer í þinginu. En satt að segja þótti mjer lestur hans verið strangur. Ekki síst þar sem enginn úr hv. Nd. var hjer inni. Jeg hefi ekki verið lengi á þingi. En jeg held þó, að jeg megi fullyrða, að þessar umkvartanir yfir því að störf þingsins dragist, sjeu ekki nýtilkomnar. Á fyrsta þinginu, sem jeg sat, komu fram sömu umkvartanirnar, og þá tafði sjálfur konungurinn þingið um langan tíma. Jeg segi þetta ekki til þess að mæla drættinum bót; jeg veit að það gæti verið betra en það er, en jeg veit líka, að oft er gjört of mikið úr honum. Það hefir t. d. tafið störf þingsins nú í ár, að hans hátign konungurinn boðaði ráðherrann utan. Auk þess hafa málin og mjög gott af því, að vera vandlega athuguð í nefnd, áður en þau eru afgreidd. Og mitt álit er það, að sum lög hafi ekki gott af því að ganga fram á því þingi, sem þau eru borin upp, og skal jeg í því efni benda á sparisjóðafrumvarpið, sem var til umræðu í fyrra í þinginu og aftur í ár, og mjer finst það hafa stórbatnað. Jeg vil ekki stuðla að því, að slóðaskapur eigi sjer stað í störfum þingsins, en jeg vil mótmæla því, að svona mikið sje fundið að. Það er of sterkt orð hjá háttv. þingmanni Ísfirðinga, að þingið sje orðið landplága, í stað þess að það ætti að vera þjóðarsómi. Mjer finst það vera nær, að biðja forseta að flýta málunum, svo sem hægt er, í stað þess að halda slíkan reiðilestur sem háttv. þingm. Ísfirðinga.