10.08.1914
Efri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

31. mál, þingsköp Alþingis

Björn Þorláksson:

Það voru að eins örfá orð, sem jeg vildi segja út af ræðu hv. 1. kgk. (J. H.) Hann hefir víst fundið sig sneiddan, og sannast þar málshátturinn, að „sök bítur sekan“.

Hvað því viðvíkur, að hann hafi felt úr þingtíðindunum, þá skildist mjer að hann þættist hafa gjört það af vorkunnsemi við mig. Jeg vissi það löngum, að hann var góður maður, en það kann ske sannast hjer annar málsháttur, „hver er sjálfum sjer næstur“, og jeg hygg að hann hafi gjört það, að fella úr þingtíðindum, meir af eigingirni en góðgirni til mín. Enda mun hann hafa fundið, að atvikið, sem var út strikað, var honum sem forseta ekki til mikillar sæmdar.

Hvað því gegnir, að jeg brjóti þingsköpin í hvert sinn, sem jeg stend upp, þá vil jeg minna hann á, að það er forseta eins að dæma um það, og hann er, sem betur fer, ekki forseti nú sem stendur.