10.07.1914
Efri deild: 5. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

17. mál, bann gegn útflutningi á lifandi refum

Flutningsm. (Sigurður Stefánsson):

Það er samkvæmt áskorun frá kjósendum úr kjördæmi mínu, að jeg flyt þetta frumvarp.

Jeg býst við, að háttv. þingdeildarm. sje eigi ljóst, hver ástæða er til þessa frumvarps og hver nauðsyn er á því. Jeg ætla því að fara um það fáeinum orðum, málinu til skýringar.

Á seinustu 7–8 árum hafa refaskinn hækkað þrefalt í verði. Áður voru þau seld fyrir 25–30 kr., nú ekki fyrir minna en 75–100 kr. Þetta hefir vakið menn til athugunar á, hvort menn gætu ekki gjört sjer meiri not að refum en áður. Þetta hefir leitt til þess, að menn hafa lagt kapp á að ná í yrðlinga að vorinu, ala þá upp til næsta vetrar og selja síðan skinnin af þeim. Viðleitni þessi hefir farið í vöxt nú upp á síðkastið. Og mjer er kunnugt um, að allmikið hefir kveðið að þessu í Ísafjarðar- Stranda- og Dalasýslu, svo að þar hafa á þennan hátt tvo síðustu vetur verið aldir upp á þriðja hundruð refa. Haldi þessum góða markað áfram, liggur í hlutarins eðli, að fleiri og fleiri fást við þessa atvinnugrein. og það er fyrirsjáanlegt, að með slíku kappi verður refunum útrýmt innan skamms. En þá kemur sú spurning, hvort heppilegt sje að útrýma þeim, þar sem þá er loku skotið fyrir þann hagnað, er landsmenn geta haft af þeim, hvort það eigi ekki að reyna að finna ráð til að halda refunum við, en þó svo, að viðhald þeirra verði ekki sauðfjárrækt landsins hættulegt. Og ráðið er að koma á tófurækt. Og þá er tvent unnið: Refunum haldið við, en hættan, sem af þeim stafar, minni.

Síðastliðið vor voru mórauð refaskinn seld á 75–90 kr. og enda meira og hvít á 30–40 kr. Hjer er því um álitlega tekjugrein að ræða. Og mjer er kunnugt að stöku menn hafa nú stóran hag af yrðlingauppeldi. Og hrepparnir þurfa nú ekki að greiða refaskyttunum ærið fje sem áður — skotmennirnir sækjast eftir að fá að vinna greni fyrir alls ekkert —, svo að refatollur er nú að hverfa úr sögunni.

Jeg skal geta þess, að jeg las í einhverju blaði, að einhver Norðmaður hefði í Vesturheimi keypt „eitt par“ af silfurrefum til að flytja þá til Noregs og galt fyrir þá ærið fje. Af þessu gjörðist þytur nokkur í Vesturheimi og þar haft á orði, að rjett væri að banna útflutning á þeim.

Og líkt stendur á hjer heima. Útlendingar hafa falað hjer refi til að koma á tófurækt heima hjá sjer. Mjer virðist svo sem landsmenn megi ekki láta þessa atvinnugrein ganga úr greipum sjer. En það er auðsætt, að það spillir markaðinum fyrir okkur Íslendingum, ef aðrar þjóðir koma á tófuklaki hjá sjer. Okkar refar, pólarrefarnir, eru mjög verðmætir þótt eigi fái þeir jafnast við silfurrefana.

Mjer er kunnugt, að víða á Vestfjörðum er gengið vasklega fram í að eyða refum með eitri, en það ber minni árangur en áður. Menn leiða þá ályktun af þessu, að tófan sje tekin að vara sig á eitrinu. Menn eru því farnir að slá slöku við eitrunina. En hitt er samt víst. eins og jeg drap á, að ef refum verður eytt eins mikið og gjört hefir verið á Vestfjörðum síðustu árin með yrðlingatökunni, verður þeim að líkindum að mestu útrýmt innan skams tíma.

Frumvarp þetta fer eigi fram á annað en girða fyrir samkepni af hálfu útlendinga við landsmenn í þessari tekjugrein, og slíkt er varla óviðeigandi. Það leikur enginn efi á, að mikið má græða á þessari atvinnu, er hjer á að hlynna að. Ef jeg t. d. vildi taka ey mína, Vigur, til tófuræktunar, er enginn vafi á, að jeg, eins og markaður er nú fyrir tóuskinn, hefði stóran hagnað af slíkri ráðabreytni, en mannúðlegt væri það ekki að eyðileggja mikið æðarvarp á þann hátt og er það eitt ærið nóg fyrir mig til að gjöra það ekki.

Jeg skal að síðustu bæta því við, að ef til vill væri rjett að bæta inn í frumvarpið ákvæði, þar sem stjórnarráðinu væri; leyft að gjöra undantekningar frá ákvæðum frumvarpsins og það mætti leyfa að flytja út refa til dýragarða og í þarfir vísindalegra rannsókna.