03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

120. mál, stjórnarskrá

Bjarni Jónsson:

Mig hefir furðað á því, síðan eg sá opna bréfið og umræðurnar á ríkisráðsfundinum, síðastliðið haust, að ráðherra hefir leyft sér að leggja slíkt til við konung. Og svo er að sjá á ræðu hæstv. ráðherra, sem það sé í samræmi við vilja síðasta alþingis, að konungur hefir í hyggju að ráðstafa uppburði íslenzkra sérmála svo sem raun er á orðin. Mig undrar það, þar sem eg átti sæti á seinasta alþ. og veit, að vilji þess var þveröfugur við það, sem hæstv. ráðh. heldur fram í umræðunum í ríkisráðinu. Það var vilji alls alþingis að nema burt ríkisráðsákvæðið úr stjórnarskránni til þess að sýna það, að það hafi verið rétt hjá hæstv. ráðherra, sem hann hélt fram 1903, að hér væri um alíslenzkt löggjafarákvæði að ræða, Sem alþingi og konungur gæti skilyrðislaust numið burt. En hér fer konungur mikið lengra en vilji seinasta alþingis var, þar sem ákveðið er, að sérmál vor skuli borin upp í ríkisráðinu um aldur og æfi, eða svo lengi sem dönsku löggjafarvaldi þóknast. Slíkt kom engum til hugar á seinasta þingi. Annars skal eg ekki orðlengja þetta frekar að sinni, því að eg vænti þess og geri það að till. minni, að 1. umr. málsins verði frestað og 7 manna nefnd kosin til að athuga það, og verður þá tækifæri til að hverfa að því síðar.