13.07.1914
Efri deild: 7. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (1904)

17. mál, bann gegn útflutningi á lifandi refum

Karl Finnbogason ; Jeg mælti á móti frumvarpi þessu við 1. umr., en þau mótmæli mín voru þá eigi tekin til“. Mjer þykir óþarfi að skipa nefnd í málið, því fram á það ekki að ganga, og jeg get ekki sjeð, að betra sje að drepa frumvarpið á þann hátt, en að fella það við atkvæðagreiðslu nú þegar. Mjer blandast ekki hugur um að það, sem hjer er farið fram á, er að koma á einokun með lifandi refa. Slík einokun mundi að eins koma einstökum mönnum að gagni, en mörgum til óhagnaðar. Hún mundi ekki verða þjóðfjelaginu í heild sinni til hangaðar. En það eitt virðist mjer geta rjettlætt að nokkru einokun, að þjóðfjelagið hafi hana með höndum og njóti arðsins af henni.

Verði frumvarp þetta að lögum, yrðu „refarnir til þess skornir“, að raka fje í vasa einstakra manna — en ekki þjóðfjelagsins. Slík lög sem hjer er um að ræða, skerða óháðan umráðarjett manna yfir eign sinni og mundu því verða óvinsæl. Ef jeg ætti t. d. yrðling, sem jeg vildi selja, og svo kæmi til mín útlendingur, sem vildi kaupa hann og byði fyrir geysi ;fje, þá þætti mjer hart, að mega ekki selja þessum manni yrðlinginn, en verða að selja hann innlendum manni fyrir 10–20 krónur og missa þannig af mörgum hundruðum eða þúsundum. Jeg man því miður ekki hvað háttv. flutningsmaður (S. St.) sagði, að gefið hefði verið fyrir silfurrefana frá Ameríku, en það skifti víst hundruðum eða þúsundum. Mjer þætti það líka ilt, ef jeg temdi ref og kendi honum ýmsar listir, og vildi svo fara með hann til útlanda og sýna listir hans, að verða að drepa refinn áður en jeg legði af stað. Og jeg er sannfærður um, að þetta þætti ekki ilt mjer einum, heldur hverjum öðrum, sem slíkt kæmi fyrir — og jafnvel háttv. flutningsmanni (S. St.) sjálfum.

Háttv. flutningsmaður (S. St.), færði sem ástæðu fyrir frumvarpinu, að það kæmi í veg fyrir að útlendingar næðu hjeðan refum til að rækta erlendis og keppa síðan við Íslendinga á markaðinum. Jeg fæ ekki sjeð, að hægt sje að koma í veg fyrir samkepni útlendinga í þessu, og frumvarpið mundi alls ekki tryggja oss gagnvart henni. Útlendingar mundu geta fengið refa annarsstaðar að. Þeir geta kynbætt þá refi, sem þeir eiga kost á, og það er ekki heldur óhugsandi, að koma mætti refum út úr landinu á bak við lögin, þó frumvarpið yrði samþykt. Svo eru nú þegar komnir utan hvolpar, sem kynni að mega kveikja út af. Enn fremur má benda á það, að útlendingar mundu hraða sjer að ná refum hjeðan, áður en lögin kæmu í gildi, þegar þeim bærust fregnir um, að þeirra væri von, því vitanlega eru þeir á varðbergi. Önnur ástæða háttv. flutningsmanns (S. St.) var sú, að gjaldþol einstakra manna mundi vaxa, ef þetta frumvarp yrði að lögum. Þetta er alveg rjett. Gjaldþol þeirra, er ala refina upp, mundi vaga stórum. En gjaldþol þeirra, er veiða refana, mundi vaxa engu síður, ef þeim væri frjálst að selja þá hverjum, sem best byði. Eigi að lögvernda atvinnu vissra manna og auka þeim þannig gjaldþol, verður jafnframt að tryggja það, að landinu komi gjaldþol þeirra að notum. Annars verður misrjettið margfalt. Verði því þetta frv. samþ., ættu að sjálfsögðu að fylgja því lög um útflutningsgjald af refaskinnum. Þá er þriðja ástæða háttv. flutningsmanns (S. St.), að markaðurinn væri besta tækið til þess að útrýma viltum refum úr landinu. Ef þetta er rjett, þá er auðskilið, að því frjálsari sem markaðurinn er, því fyr verður refunum útrýmt. Frumvarp þetta heftir markaðinn og verkar því á móti útrýmingu refanna, samkvæmt rökum háttv., flutningsmanns (S. Stj.) sjálfs.

En jeg býst ekki við að markaðurinn mundi útrýma viltu refunum. Góður bóndi sker ekki fje sitt alt á einu hausti, þó markaðurinn sje góður; og vitur varpeigandi tekur ekki öll eggin og drepur fuglinn með í varpi sínu, þó arðvænlegt sje í bráð.

Mjer er sagt, að dæmi sjeu til, að grenjaskyttur hirði ei um að drepa fullorðnu dýrin en leggi aðeins kapp á að ná yrðlingunum. Um sannanir veit jeg ekki, en þetta er mjög sennilegt. Ef þetta yrði algengt, sem ekki er ólíklegt, þá hlyti einmitt góði markaðurinn frekar að tefja en flýta fyrir útrýmingu refanna.

Hv. flutningsmaður hjelt því fram, að refatollarnir mundu hverfa og hrepparnir jafnvel fara að hafa beinar tekjur af refum. vegna þess að svo margir vildu veiða þá, Ekki getur frv. hans valdið þessu eða stuðlað að því, þar sem það hlyti að draga úr áhuga manna á refaveiðum og spilla markaðinum.

Að lokum vil jeg í fám orðum telja þau tormerki, sem jeg finn á frv., ef það yrði að lögum.

Lögin mundu valda misrjetti og því verða óvinsæl og illa haldin; þau mundu ekki tryggja oss gegn samkepni útlendinga og ekki stuðla að eyðingu refanna, nje vernda refaræktina í landinu á nokkurn hátt. Þar að auki kæmu þau ekki einungis þeim í koll, er vinna refina, heldur einnig þeim, er ala þá, því að það getur einnig komið þeim illa, að mega ekki selja refi sina, hverjum sem kaupa vill. Af þessum ástæðum leyfi jeg mjer að leggja til, að frv. verði felt nú þegar.