22.07.1914
Efri deild: 15. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (1908)

17. mál, bann gegn útflutningi á lifandi refum

Framsögum. minni hl. (Sig. Stefánsson) :

Jeg ætla ekki að lengja umræðurnar mikið nú. Nefndarálit meiri hlutans er að vísu ekki langt, en þó mætti ætla eftir því, að hjer væru um stórmál að ræða, þar sem brotnar væri allar meginreglur fyrir viðskiftalífinu og menn sviftir eignarrjettinum.

Jeg hefi tekið fram, að horfur væru á, að refarækt gæti orðið álitlegur atvinnuvegur. Því væri rjett, að löggjafarvaldið veitti honum eftirtekt og reyndi að stemma stigu fyrir öllu því, er gæti hindrað þenna nýja atvinnuveg. Við erum heppilega settir að því leyti, að skinn af íslenskum refum eru talin ein hin bestu refaskinn, og því mjög útgengileg verslunarvara og í háu verði. Jeg efa ekki, að margir munu í framtíðinni koma hjer upp refarækt. Fari nú svo, að margir leggi stund á hana, má segja, að hjer sje um almennings gagn að ræða.

Meiri hlutinn hefir skift mótbárum sínum í fjóra liðu og ska1 jeg nú víkja stuttlega að þeim. Fyrst er sagt, að engin þörf sje á banni þessu, þar sem þeir, sem vilji, geti fengið refana, hvort sem útflutningur á þeim sje bannaður eða ekki.

En það er ekki aðalatriðið í þessu máli, heldur hitt, að íslenskir refar sjeu ekki fluttir út úr landinu til æxlunar erlendis, og þannig stofnuð samkepni við íslensku refaskinnin á erlendum markaði.

Önnur ástæðan er sú, að útflutningsbannið tryggi það ekki, að þeir, sem refi vilja kaupa, geti fengið þá annarsstaðar frá. En því víkur nú svo við, að það er ekki svo víða annarsstaðar en hjer, sem hægt er að flytja út heimskautarefi. Á Grænlandi, þar sem refaskinnin eru geipiverðmikil, þar er bannaður útflutningur lifandi refa. Hv. þm. (K. F.) tók það fram, að fá mætti refa frá Ameríku. Nýlega var selt þaðan refapar til Noregs, en því var svo tekið, þegar menn fóru að átta sig á málinu, að líklegt er, að Ameríkumenn setji lík lög um þetta efni, þeim sem hjer er um að ræða. Ameríkumenn eru svo gjörðir, að þeir kæra sig ekki um að skapa sjer keppinauta í þessari atvinnugrein; þeir vilja hlynna að henni heima hjá sjer.

Þá er enn fremur tekið fram í áliti hv. meiri hluta, að bannið verði fáum mönnum til hagnaðar, en fleirum til tjóns. Þetta er sagt alveg út í bláinn, því jeg fullyrði, að háttvirtur meiri hluti hefir ekki hugmynd um, hvað víða má koma á refarækt hjer á landi. Hann virðist að eins hafa fest augun á eyjabændur, og honum sýnist þar hafa farið eins og fleirum, að ætla, að þeir eigi að sjálfsögðu við fullsælu og allsnægtir að búa, og því sje svo sem ekki ástæða til að vera að hlynna að þeim. Hann virðist ekki hafa hugmynd um það, að það má koma upp refarækt á meginlandi eigi siður en í eyjum; ekki þarf annað en að koma upp girðingum til að geyma refana í og jeg held því fram, að slík refarækt sje öruggari en í eyjum úti; því að ís, annaðhvort lagís eða hafís, getur lagst milli eyjanna og meginlands og refarnir hlaupið í land á honum. Annað eins og það getur ekki átt sjer stað, þegar þeir eru geymdir í girðingum á landi. Jeg veit, að til eru nokkrar eyjar hjer við land, þar sem ekki er hætt við þessu, svo sem Vestmanneyjar og sumar eyjarnar á Breiðafirði, en þær eru fáar í samanburði við hinar. Það sem hv. meiri hluti ætlar að geti orðið fáum til hagnaðar, getur, þegar þess er gætt, sem jeg hefi nú sagt, orðið mörgum til óhagnaðar. Það getur orðið ekki lítill óhagnaður fyrir alla þá, sem stund vilja leggja á refarækt, að útlendingar hafi leyfi til að kaupa hjer hin dýrmætu dýr til undaneldis; með því vinnum vjer sjálfir að því, að skapa oss keppinauta á heimsmarkaðinum.

Í fjórða lagi telur hv. meiri hluti útflutningsbannið ónauðsynlega skerðing á umráðarjetti manna yfir eign sinni. Jeg skil ekki í hvernig hv. meiri hluti getur sagt þetta, þar sem reynslan sýnir að yrðlingar eru komnir í afarverð. Það er ekki hægt að segja, að það sje slök verslun að geta fengið 20–25 kr. fyrir þá kornunga, nýtekna af spenanum. Það er ekki heldur líklegt, að neinn fjöldi verði fluttur út af refum, þótt leyfilegt sje, svo að verðið hækki mjög fyrir eftirsókn á refum til útflutnings. En það þarf sannarlega ekki að flytja hjeðan marga refa til þess að spilla fyrir oss markaðinum erlendis; þeim er ekki lengi að fjölga, og þurfa ekki mörg ár að líða, þangað til fjöldi refa geti verið kominn út af einu pari.

Í sumar var hjer þýskur maður á ferðinni til að kaupa refa ; ætlaði hann að flytja þá suður í Alpafjöll og ala þá þar upp. Hvorki fór hann til. Ameríku nje Grænlands til refakaupa; honum hefir ekki litist á það, en hingað hefir hann talið sjer óhætt að fara, talið víst, að hjer mundi ekki verða lagðar hindranir í veg sinn. Við höfum þegar nokkra reynslu fyrir því, að refarækt muni hepnast hjer. Fyrir nokkru var byrjað á henni á Bíldudal; að vísu varð hún ekki langæ þar, því að tófurnar drápust af óhollu viðurværi. Bóndi einn í Dalasýslu hefir og alið tófur inni í húsi, og þó fengið af þeim fallegustu skinn. Í Elliðaey á Breiðafirði er þegar byrjuð refarækt og lítur út fyrirað hún ætli að hepnast vel. Þetta bendir á, að refarækt muni geta orðið atvinnuvegur fyrir marga. Og ekki er annað sjáanlegt en að þessi atvinnuvegur eigi að geta orðið næsta arðvænlegur, þar sem nú fást 75–150 kr. fyrir mórauð tófuskinn og 30–40 kr. fyrir hvít. Jeg held það sje ofmikil teoretisk umhyggjusemi fyrir principum, sem kemur fram hjá hv. meiri hluta í máli þessu. Með frv. þessu er alls eigi verið að skerða rjett einstaklinga, heldur verið að vernda hagsmuni almennings. Þótt það kynni að geta komið fyrir eitt skifti eða svo, að útlendingur byði meira í ref en hægt er að fá fyrir hann innanlands, þá mundi það engan veginn vega á móti því almennings gagni, sem af því stafar að hindra samkepnina á heimsmarkaðinum; og jeg held þingið geti vel staðið sig við að setja lög, er verndi þennan atvinnuveg, þó þau kunni í einstöku tilfellum að koma í bág við hagsmuni einhvers einstaklings. Hvað mörg lög gjöra það ekki?

Jeg kannast ekki við það, að jeg hafi eigi sýnt hv. frsm. meiri hl. (K. F.) fulla kurteisi. Hann hafði ekki komið með neytt nýtt við 2. umr. og því fann jeg ekki ástæðu til að svara því frekar en jeg hafði áður gjört, og býst heldur ekki við að heyra nú nokkuð frá honum svaravert.