22.07.1914
Efri deild: 15. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (1909)

17. mál, bann gegn útflutningi á lifandi refum

Framsm. meiri hl. (Karl Finnbogason):

Hv. framsm. minni hl. (S. St.) þótti jeg og nefndarálitið hafa farið fyrir ofan garð málsins og neðan. Hið sama má engu síður segja um ræður hv. þm. (S. St.); þær snerta lítt aðalatriði málsins. Hv. framsm. minni hl. (S. St.) var að tala um það, að við legðum áherslu á, að engin þörf sje á lögum þessum. Þetta er satt, en hv. þm. (S. St.) er okkur þar í raun rjettri samdóma (S. St.: Nei). Jú, því hann segir, að það muni borga sig að ala upp refa og stunda refarækt, þótt sala þeirra og flutningur út úr landinu sjeu leyfð. Þetta er líka mjög sennilegt; því að, ef það borgar sig eins vel að rækta refa hjer og í útlöndum, hví skyldi það þá ekki líka borga sig fyrir innlenda menn að kaupa refana sama verði og útlendingar telja sjer fært að bjóða fyrir þá? Hv. framsm. minni hl. (S. St.) leggur mikla áherslu á, hve nauðsynlegt sje að vernda þennan atvinnuveg og telur lög þessi munu gjöra það. En þar missýnist honum áreiðanlega. Það er ekki því að fagna fyrir hann, að Ísland sje eina landið, sem hægt er að fá refa frá; það hefir verið sýnt og sannað, að fá má refa úr öllum heimskautalöndunum, frá Ameríku, Grænlandi, jafnvel Noregi og Svíþjóð og víðar að.

Reyndar sagði hv. þm. (S. St.) að eigi væri hægt að fá refa frá Grænlandi. Jeg þekki ekki til að þar sje neitt bann gegn útflutningi refa. Hitt er kunnugt, að þar er einokunarverslun. En einokunarverslun er alt annað en útflutningsbann, og hvað skyldi vera því til fyrirstöðu, að fá mætti refa keypta þar hjá konungsversluninni eins og hverja aðra vöru? Og þó þetta væri ekki hægt, þá mundi að líkindum vera hægt fyrir veiðimenn, að ná refum frá Austur-Grænlandi. Vigfús Grænlandsfari skýrði oss frá því í vetur, að þar væru refar svo gæfir, að þeir gengju til manna og stælu frá þeim svipunum eða jafnvel tækju við mat af þeim. Auðgjört væri að veiða svo gæfa refa, og fáir yrðu til frásagnar um þær veiðar í óbygðum Grænlands og enda víðar í heimskautalöndunum. Erfitt mundi og vera að fyrirbyggja tryggilega allan útflutning refa hjeðan frá landi, þó lögbannaður væri, eins og jeg hefi áður tekið fram.

Þegar á alt þetta er litið, sje jeg enga skynsamlega ástæðu til þess, að vjer getum trygt oss góðan markað á refaskinnum með lögum þeim, sem hjer eru í smíðum. Okkar hólmi er svo lítill, að það getur engu verulegu breytt um markað refaskinna, þó við friðum hann með þessum hætti. Hv. framsm minni hl. (S. St.) vildi rjettlæta frv. með því að Ameríkumenn ætluðu að fara að semja bannlög svipuð þessum. Það kann vel að vera, að þar í landi sjeu einhverjir svipaðrar skoðunar um þetta, eins og háttv. þm, (S. St ), en engin ástæða er fyrir oss að stökkva upp til handa og fóta fyrir það, þótt um þetta sje rætt í Ameríku.

Þá vildi háttv. minni hluti (S. St.) og rjettlæta frumvarpið með því, að þetta væri ekki til hagsmuna fyrir eyjabúa eina; refarækt mætti engu síður koma upp á landi. Það kann satt vera, og hefi jeg ekki borið móti því, að rækta megi refa á landi; en meira kostar það. Á landi þarf alstaðar góðar girðingar, en þeirra er ekki hin sama þörf í eyjum, sumstaðar alls engin. Að vísu kann það að geta komið fyrir, að refar hlaupi á ísunum upp. á land. En til þess að varna því, þarf ekki annað en eyjabúar afgirði refaland sitt eins og meginlandsbúar verða jafnan að gjöra, og verður refarækt þá engu óöruggari í eyjum en á landi uppi. Það tjáir ekki að neita því, að eyjabúar standa best að vígi með refarækt, og geta haft mest hlunnindi at henni. En þeir eru, fæstir, sem í eyjum búa, og fáir stunda. hana enn á meginlandinu, hvað sem verður. Hjer er því verið að sjá fyrir hagsmunum fárra manna, en eigi fjöldans. Og eins og jeg hefi áður tekið fram, kemur sölubannið líka niður á refaræktarmönnunum, áður en líkur, svo við það skerðast hagsmunir þeirra að nokkru.

Jeg skil ekki hvernig háttv. framsögum. minni hlutans (S. St.) getur haldið því fram, að frv. þetta sje til þess að efla almennings gagn.

Loks vil jeg enn undirstrika það, að ef gjaldþol einstakra manna vex við það, að atvinnuvegur þeirra nýtur sjerstakrar verndar, þá má ekki síður vænta þess, að gjaldþol fjöldans rýrni við þau höft, sem verndunin leggur á atvinnurekstur hans.

Frjáls verslun er eflaust best hjer eins og annarstaðar; vjer Íslendingar ættum sannarlega að muna einokunina og það ilt, sem af henni leiddi, og fara varlega í að skerða verslunarfrelsið. Veitir ekki af að gjalda jafnan varhuga við, þegar á að fara að hefta það, þótt í smáu sje. „Á mjóum þvengjum læra hvolparnir að stela“. Og þessi smáu verslunarhöft geta áður en varir orðið að stórum hindrunum, ef á annað borð er gengið inn á þá braut, að leggja þau á.