17.07.1914
Efri deild: 11. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

62. mál, hvalveiðamenn

Ráðherra (Hannes Hafstein) :

Háttv. síðasti ræðumaður (K. E.) gjörði engan greinarmun á skaðabótum fyrir eignatjón og á skaðabótum fyrir atvinnumissi, en sá greinarmunur er einmitt nauðsynlegur í þessu máli. Bar hann þessi lög saman við lögin um aðflutningsbann á áfengi, og taldi að ekki væri meiri ástæða til skaðabóta hjer en þar. En samlíkingin er ekki alveg rjett, því að aðflutningsbannlögin valda að vísu atvinnutjóni, en ekki beinu eignatjóni. Þau lög hafa ekki svift menn eða gjört mönnum verðlaus eða verðlítil hús eða dýrar vjelar, svo sem þessi lög gjöra. Í Noregi voru víst flestir lögfræðingar á einu máli um það, að ríkissjóði bæri ekki skylda til að borga skaðabætur fyrir það atvinnutjón, sem lögin um bann gegn hvalveiðum þar höfðu í för með sjer fyrir hvalveiðamenn. En um hitt voru skiftar skoðanir, því að mjög margir helstu lögfræðingar, hæstarjettardómarar og aðrir vitrir menn töldu það sjálfsagt, að minsta kosti eftir anda laganna, að bæta hvalveiðamönnum það eignatjón, er þeir biðu við það, að þeim yrðu ónýt bræðsluhús, katlar, ýmsar vjelar, sem til hvalafurða notast, og fleira þessháttar. Þótt sumum lögfræðingum þætti nokkurt vafamál Hvort ríkissjóður Norðmanna yrði skyldaður með dómi til þess að bæta slíkt eignatjón, þá voru allir sammála um, að sanngirni mælti með því að slíkt tjón yrði bætt, þó það ef til vill væri ekki lagaskylda. Varð það því úr að sætst var á málið til þess að komast hjá þeirri rekistefnu, er mat á hvalstöðvahúsum, kötlum og öðru þessháttar hefði haft í för með sjer. Jeg fyrir mitt leyti hallast að þeirri skoðun að samkvæmt stjórnarskrá, vorri sje landssjóður skyldur að bæta hvalveiðamönnum það tjón, er þeir bíða á eignum sínum vegna þessara laga, því að svo er ákveðið í 50. gr. stjórnarskr., að engan megi svifta eign sinni, nema fult verð komi fyrir. En það er sama sem að menn sjeu sviftir eign sinni, ef hún er gjörð þeim alveg verðlaus, eins og verða mun um þau sjerstöku tæki og áhöld, hús og lóðir, sem að eins hafa verið tilbúin, tilfengin og notuð til hvalveiðanna og hafa ekki verðmæti til annars. Ef lögin standa óbreytt er jeg því hræddur um að landssjóður verði með dómi skyldaður til að greiða hvalveiðamönnum skaðabætur fyrir eignatjón þeirra; hversu miklar get jeg ekki sagt um, en jeg hefi ástæðu til að ætla að þær mundu nema talsverðri upphæð. En þótt landssjóður yrði ekki dæmdur að lögum til að bæta þetta tjón, þá sýnist mjer hann ekki geta sýnt þá ósanngirni að láta það vera óbætt, einkum nú, þegar ríkissjóður Norðmanna hefir riðið á vaðið og greitt skaðabætur góðfúslega. Slíkt mundi verða ilt til afspurnar og landi voru til lítils sóma.

Sami háttv. ræðumaður (K. E.) vildi gjöra lítið úr skaðabótakröfu Bulls hvalveiðara, vegna þess að lögin væru enn ekki gengin í gildi og af því að hann væri nú hættur veiðum hjer við land. En hann rak hjer veiðar þegar lögin voru hjer til meðferðar í fyrra og lýsti þá yfir því, að hann mundi gjöra kröfu til skaðabóta, vegna þess að honum yrði ómögulegt að selja stöð sína ef lögin gengu í gildi. Honum var þá svarað því, að óvíst væri hvort lögin næðu fram að ganga, og varð þá ekki meira úr brjefaskiftum að sinni. En nú hefir hann sent stjórninni þessa kröfu, sem háttv. þm. er kunnugt, sem eiginlega er tilkynning um að hann haldi rjettarkröfu sinni fastri. Og ef til máls kemur, hygg jeg að hann eða málfærslumaður hans, mundu leitast við að færa sönnur á, að hann hafi beðið tjón, vegna þess að lögin voru samþykt, jafnvel þótt hann hafi hætt við veiðina — vegna laganna — áður en þau komu til framkvæmda. Ef þetta frv., sem nú liggur fyrir, verður að lögum, þá fellur allur grundvöllur fyrir skaðabótakröfum niður. Þeir hvalveiðamenn, sem nú eru hjer við land, fá þá að halda veiðum sínum áfram með þeim bátafjölda, sem nú hafa þeir, að eins bannað að auka útveg sinn frá því, sem nú er, eða afhenda rjettinn öðrum, og held jeg að þá muni þeir eigi geta fengið sjer dæmdar neinar skaðabætur. og þá yrði það ekki kölluð ósanngirni, þó að þingið vildi ekki greiða þeim þær. Ef frv. þetta verður samþykt, þá mundu hvalveiðarnar smátt og smátt og innan skams falla úr sögunni, þar sem engar nýjar stöðvar yrðu reistar eftir lögunum frá 1913, og mundu þau lög því ná þeim tilgangi sínum að friða hvali hjer við land, ef það er á annað borð mögulegt. En jeg fyrir mitt leyti er vondaufur um að hægt verði að stöðva eyðingu hvalanna með því að banna hvalveiðamönnum með lögum, að hafa bækistöðvar sínar hjer á landi, því með þeirri kunnáttu og með þeim vjelum, er menn nú hafa ráð á, munu hvalveiðamenn sjá einhvern veg til þess að halda áfram veiðum sínum, þrátt fyrir slíkt bann, t. d. með því að hafa fljótandi stöðvar einhverstaðar í norðurhöfum. Þau munu ekki verka sem friðunarlög, enda fara eins og kunnugt er alls engar hvalveiðar (dráp hvala) fram á voru löggjafarsviði, heldur langt til hafs. Aðalárangurinn af þeim lögum verður því að líkindum sá, að landssjóður er sviftur þeim tekjum, er hann hefir af því, að hvalveiðamenn hafa lagt upp hjer á landi, og sveitasjóðir missa einnig miklar tekjur, er þeir hafa haft af hvalveiðastöðvunum. Hagurinn af þessum lögum mun verða vafasamur eins og af öðrum atvinnubannlögum og slíkum ófrelsislögum.