06.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Flutningsm. (Stefán Stefánsson):

Eg get búist við því, að mörgum þyki farið nokkuð fljótt fram á breytingar á þessum lögum, þar sem ekki er fult ár síðan þau vóru staðfest. En þegar litið er á undirbúning þann, er lögin fengu á seinasta þingi, þá get eg þó búist við því, að mönnum komi það ekki mjög á óvart, þótt farið sé fram á lítilsháttar breytingar. Það er líka samkvæmt ósk þingmálafunda í kjördæmi mínu, að eg flyt þetta frumv.

Það, sem hér er farið fram á, er, að sú breyting verði gerð á lögunum, að hreppanefndir þurfi ekki eftirleiðis að safna pöntunum á baðlyfjum og heimta borgun fyrir þau að vorinu, þegar enginn getur enn vitað með vissu,hversu mikið hann muni geta sett á vetur af fénaði, og þar af leiðandi, hve mikið hann þarf af baðlyfjum. Þess ber og að gæta, að þessi tími er sá tími árs, er menn eiga erfiðast um peninga.

Enn fremur er ráðið til þeirrar breytingar, að stjórnarráðið þurfi ekki eftirleiðis að panta lyfin, heldur að eins eftir ráðum dýralæknis — að skipa fyrir, hvaða lyf skuli notuð. Því aðalatriðið er ekki það, hver pantar lyfin, heldur hitt, að féð sé baðað, og að allir baði. Það virðist líka enn meiri ástæða til að sinna þessum óskum, þegar þess er gætt, að mikill meiri hluti hreppanna á landinu — 109 á móti 32 hreppum, óskuðu þess að eins, að samþykt yrði heimildarlög, en ekki almenn lög, eins og raunin varð á.

Eg treysti því, að þetta mál fái góðar undirtektir, og er það ósk mín, að kosin verði 5 manna nefnd til að athuga það. Nefndinni til leiðbeiningar skal eg geta þess, að það þarf ennfremur að breyta lítið eitt síðustu grein laganna, nefnilega að taka burtu tilvísunina til 5. gr., því að í þessu frumvarpi er stungið upp á því, að sú grein falli burt.