06.08.1914
Efri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

90. mál, lán til raflýsingar fyrir Ísafjarðarkaupstað

Flutningsm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg vil taka það fram, að meðan fjáraukalögin voru enn þá ódrepin í Nd., kom mjer ekki annað til hugar en að bíða með þessa lánbeiðni, þangað til þau kæmu hjer upp í deildina. Þegar svo fjáraukalögin voru feld, bjóst jeg við að hreyfa málinu alls eigi á þessu þingi. En síðan hafa komið fram 3 eða 4 frv. til heimildarlaga, og þegar jeg sá, að þau höfðu fylgi, fanst mjer það skylda mín gagnvart kjósendum mínum, að flytja einnig þetta frv. inn á þing. — Jeg hygg, að hjer sje ekki á neinn hátt brotið á móti stjórnarskránni, og skil jeg ekki annað en að sá úrskurður, sem háttv. forseti Nd. nýlega kvað upp um það efni, hljóti einnig að gilda hjer í deildinni. Hins vegar vil jeg geta þess, að jeg er fyllilega sammála hv. 3. kgk. (Stgr. J.) um það, að hjer hefir Nd. lagt út á mjög varhugaverða braut, sem Alþingi væntanlega snýr aftur af sem fyrst. — Annars ætla jeg mjer nú ekki að fjölyrða frekar um þetta mál, en mun hlíta úrskurði forseta.