06.08.1914
Efri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (1941)

90. mál, lán til raflýsingar fyrir Ísafjarðarkaupstað

Kristinn Daníelsson:

Við erum búnir að heyra mikið um það rætt í þinginu, að fjáraukalögin voru feld og annað ráð tekið upp, til að koma fram nauðsynlegum fjárveitingum. Það getur vel verið, að það orki tvímælis um þá aðferð, sem meiri hluti þingsins hefir beitt. En það er mjög þreytandi, að heyra sífelt verið að tala um þessar ráðstafanir. Jeg hygg nú að vísu, að meiri hlutinn taki þetta ekki nærri sjer, og jeg fyrir mitt leyti held að það hafi verið heppilegt, að fara svo að, sem gjört hefir verið. Kjósendur okkar ætlast til, að við berum fram ýmsar þarfir þeirra nú á þessu þingi. En ef fjáraukalög eru samþykt, er hætt við, að erfitt mundi að stöðva útgjaldastrauminn, og er ekki víst, hvar það mundi lenda. Þegar fjáraukalögin voru fyrir neðri deild, voru komnar fram margar fjárbeiðnir úr ýmsum áttum. Og jeg held að hægra sje að takmarka þær, ef það ráð er tekið, að setja heimildarlög, heldur en ef fjáraukalög eru sett. Það verður hægra að stöðva útgjaldastrauminn, enda þótt margir þingmenn komi fram með frumvörp til heimildarlaga til ýmissa fjárframlaga.

Hvað er það nú, sem meiri hlutinn hefir gjört sig sekan í? Það er alveg það sama, sem gjört var 1912 af meiri hlutanum, sem þá var, en sem nú er minni hlutinn. Jeg var þá hjer í þingbyrjun, og heyrði þá ráðherra segja, að nauðsyn mundi að gefa út fjáraukalög. Síðan fór jeg heim aftur, því mjer var ekki hleypt inn á þingið, enda þótt jeg væri rjettkjörinn þingmaður. Jeg bjóst svo við að heyra að fjáraukalög hefðu verið samþykt af þinginu. En hvað skeður? Það voru engin fjáraukalög samþykt, heldur voru búin til heimildarlög, eins og t. d. heimildarlögin um að kaupa Vestmannaeyjasímann. Jeg efast ekki um, að þetta hafi þá verið heppilegt. Nú er fundið að hinu sama af þeim sömu mönnum, sem þá beittu þessari aðferð. Það gengur svo, að það er hægt að sjá flísina í auga bróður síns og gleyma því svo, að bjálki sje í manns eigin auga. Að lokum skal jeg geta þess, að jeg er máli þessu hlyntur, og skal jeg svo ekki lengja frekar umræðurnar að þessu sinni.