07.08.1914
Efri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (1949)

90. mál, lán til raflýsingar fyrir Ísafjarðarkaupstað

Steingrímur Jónsson:

Þá er ekki frekara að athuga við formatriði þessa máls, og sný jeg mjer því að aðalefni þess.

Og jeg vil spyrja, hvort deildinni finst heppilegt að samþykkja slíkt lagafrumvarp eins og nú standa sakir.

Háttv. þingm. Ísafjarðar (S. St.) benti á að þetta væru að eins heimildarlög, og það kæmi ekki til að stjórnin lánaði fjeð, nema landssjóður ætti hægt með að lána það.

En jeg vil benda á, að annað gæti þó orðið ofan á, því að þótt hjer sje ekki nema um heimildarlög að ræða, þá hefir undanfarin reynsla sýnt, að lánveitingaheimildir hafa, þegar á átti að herða, orðið nálega sama sem lánveitingaskipanir. Það var að eins veitt heimild til lánveitingar handa niðursuðuverksmiðjunni á Ísafirði um árið. En hvernig fór? Þrátt fyrir mestu peningaeklu í landssjóði, komst ekki ráðherra hjá því, að veita talsvert af láninu, sem því miður hjálpaði þó ekki verksmiðjunni. Ekki þó svo að skilja, að jeg haldi að hætta muni vera á, að landssjóður tapi fje sínu.

Háttv. flutningsmaður (S. St.) sagðist hafa von um að fje mundi vera til í landssjóði til að veita lán þetta; kvaðst hann hafa fengið vitneskju um, að svo hefði að minsta kosti verið fyrir nokkrum dögum.

Þetta er nú varla nema 1/2 sannleikur, eða fjórðungur sannleiks; því að þótt nokkuð fje væri í landssjóði eftir reikningunum um áramót, líklega 4–500,000 krónur, þá var það í raun rjettri ekki nægilegt. Það veitir ekki af, að við áramót sje í sjóði, samkvæmt landsreikningnum, ef vel á að vera, sem svarar 1/3–1/2 af ársútgjöldunum. Jeg hefi heyrt sagt, að allmikið fje hafi verið í landssjóði nú fyrir skömmu; en sumpart er það þannig til komið, að selt hefir verið nokkuð af verðbrjefum, sem voru eign landssjóðs, og andvirðið runnið í landssjóð; einnig er nokkuð af hafnar. láninu, sem enn er óeytt, geymt í landssjóði.

Það væri sannarlega hart að gengið, að veita, eins og nú á stendur, þetta stóra lán, miklu stærra en lánið til Seyðisfjarðar, sem ekki var nema 40,000 kr. Þessi lánveiting væri líka sama sem að taka tappann úr tunnunni; hvert þorpið af öðru mundi koma með samskonar lánbeiðnir. Jeg mundi t. d. telja mjer skylt að biðja um 20–25,000 kr. lán til handa Húsavík til raflýsingar, ef þetta á fram að ganga, og hefi jeg þó varla hug til þess, eins og horfurnar eru.

Jeg veit til þess, að ef málið kemst til neðri deildar, þá muni þar bætast við 30,000 kr. lánbeiðni fyrir einn hrepp á Austurlandi.

Það er víst, að verði þessi lánsheimild veitt, þá er með því opnað fyrir útstreymi úr landssjóði með heimildarlögum, og það á miklu hættulegri veg en þótt lánveitingar sjeu gefnar í fjárlögum eða fjáraukalögum. Þetta lagafrumvarp, sem eiginlega gengur hjer undir fölsku nafni, er því mesti viðsjálsgripur, og af því er það, að jeg hefði óskað, að því hefði verið vísað hjer frá, en alls eigi af því, að jeg vilji í nokkru rýra rjett efri deildar að nokkru leyti.