07.08.1914
Efri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (1951)

90. mál, lán til raflýsingar fyrir Ísafjarðarkaupstað

Flutningsm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg get tekið til greina ástæður háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.), en miklu síður ástæður háttv. 3. kgk. (Stgr. J.). Það er auðvitað, að sje fje ekki til í landssjóði, þá er ekki um neitt að tala, og lánsheimildin getur ekki orðið að gagni. Hitt er að væna stjórnina um ofmikið kjarkleysi og helgulsskap, að hún geti ekki staðið það af sjer, að láta fje úr landssjóði, þótt heimildarlög sjeu til, fyrir greiðslu þess, ef það á annað borð má ekki missast þaðan.

Það á ekki við að bera saman lánveitinguna til niðursuðuverksmiðjunnar á Ísafirði og þetta. Þar átti privatfjelag hlut að máli, en hjer er það bæjarfjelagið sjálft; og ætti því ekki að koma til mála, að landssjóður mundi geta tapað nokkru af láninu; enda tapar hann vonandi engu af hinu láninu heldur. Mjer hefði ekki dottið í hug að koma fram með frv. þetta á þessu þingi, ef háttv. Nd. hefði ekki byrjað á því að taka tappann úr tunnunni, og farið að hrúga heimildarlagafrv. inn á þingið; og það verð jeg að vona, að háttv. Ed. hiki við að gleypa við öllum þeim heimildarlögum, sem nú eru á ferðinni í hv. Nd., ef hún fellir þetta frv.

Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um málið, en fel það háttv. deild, og vona að hún lofi því að lifa, að minsta kosti þangað til sjeð verður fyrir endann á því, hvernig hinum heimildarlögunum muni reiða af.