11.07.1914
Efri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

24. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Flutnm. (Kristinn Daníelsson) :

Jeg hefi auðvitað ekki neitt á móti því, að þetta atriði, sem háttv. 3. kgk. þm. (Stgr. J.) drap á, sje athugað í nefnd. Hins vegar er jeg ekkert hræddur um, að hjer sje farið fram á neitt, er valdi því, að frá útlendum þjóðum berist hingað kærur og kvartanir, er geti orðið stjórn vorri og þjóð áhyggjuefni.

Það er auðvitað rjett, að aðalrefsingin er fólgin í því, að afli og veiðarfæri eru gjörð upptæk. En það verður þó að muna eitthvað um sektirnar. Þær mega ekki vera svo lágar, að útlendingar gjöri gys að þeim. Sumir hafa jafnvel stungið upp á að gjöra skipin sjálf upptæk, en hjer er ekki farið fram á slíkt.