23.07.1914
Efri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

24. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Framsögum. (Karl Einarsson):

Eins og háttv. þingdm. er kunnugt, kom fram hjer í deildinni frv. um hækkun á sektum fyrir botnvörpuveiðar í landhelgi. Nefnd sú, sem skipuð var í málið, hefir nú látið uppi álit sitt á þgskj. 135.

Nefndin varð sammála um það, að rjett væri að hækka lágmark sektanna fyrir ólöglegar botnvörpuveiðar og fyrir brot gegn lögum nr. 18, 8. júlí 1902. En nefndinni leitst líka ráðlegast að draga í eina heild öll lagaákvæði um þetta efni.

Áður en jeg fer út í einstök atriði málsins, ætla jeg að fara nokkrum almennum orðum um það.

Allir vita, að fiskiveiðar eru annar aðalatvinnuvegur landsmanna, og að einn aðalþátturinn í þeim eru veiðar á opnum bátum og vjelbátum. Þetta bátfiski stundar yfirgnæfandi hluti sjómanna, og það er afarmikilvæg atvinnugrein.

Hjer er ekkert viðlit nú að sýna fram á, hvaða áhrif fiskiveiðar með botnvörpu í landhelgi hafi á bátfiski. En vjer höfum dæmin fyrir oss úr öllum fiskiverum landsins. Hvaðanæfa berast umkvartanir um, að botnvörpungar vaði uppi á landhelgissvæðinu, eyðileggi veiðarfæri, slíti línur og rifi net eða glati þeim með öllu. Sjerstaklega eru botnvörpuveiðar mjög skaðlegar á tveim stöðum, við Vestmanneyjar og í Faxaflóa, einkum í Garði og hjer suður með sjó. Á þessu svæði eru mikinn hluta árs stundaðar fiskiveiðar á opnum bátum og bifbátum. Þorskurinn byrjar að ganga á grunnmið í Vestmannaeyjum snemma í marsmánuði og heldur sig þar fram í vertíðarlok eða jafnvel þangað til seinast í maí. Á þessum tíma árs er hægt. að telja botnvörpuskipin í tugum að veiðum í landhelgi á þetta 10–16 faðma dýpi. Það má segja, að þeir sjeu með vörpurnar upp við landssteina. Vestmannaeyingar fá mjög að kenna á þeim. Jeg get af eigin reynd borið um það. Hvenær sem veður leyfir og fiskur er á grunnmiði, kasta þeir vörpunum út innan um bátana. Þeir virða þá ekki meira en svo, og draga svo vörpuna fyrir aftan þá og fyrir framan þá og eyðileggja línurnar. Þeir þurfa heldur ekkert að óttast. Þótt einhver þeirra sje einstöku sinnum staðinn að verki og um það fengin ábyggileg skýrsla, þá er sjaldan hægt að ná í þá. Ef grunur um kæru liggur á einhverjum botnvörpung að áliti skipstjórans, kemur sá hinn sami aftur með annan skipstjóra. Það er enginn hægðarleikur að hafa. hendur í hári þeirra.

Nú býst nefndin ekki við, að þetta frv. hefði mikil áhrif til að hindra ólöglega veiði, þótt það yrði að lögum. En samt getur það orðið mikilsvert fyrir okkur, því að nú renna sektirnar í sjóð, sem verja á til hagsmuna fiskiveiðum og landhelgisvarna. Það er því ekki lítis vert, að sektirnar sjeu hækkaðar. Með því eflist þessi sjóður því fyr, og jeg álít, og flestir með mjer, að eftirlitið verði meira og minna í molum, þar til vjer sjálfir tókum það að oss. Þá fyrst yrði verulegt gagn að því, en þá mundi og lögbrotunum fækka. Fyrir Vestmanneyjar er það áreiðanlega mest um vert, að botnvörpuskip geti alls ekki veitt í landhelgi, því af því mundi og leiða það, að þau hjeldust ekki við þar á nálægum miðum, og þá er jeg fullviss, að bátaútveg þar væri vel borgið.

En það er á fleira að líta. Með hækkun sektanna verður meiri jöfnuður á refsingu skipanna, því að upptækur afli er mjög mismunandi. Jeg hefi aldrei orðið þess var, að skipstjórar, sem náð varð í og brotlegir voru gegn botnvörpulögunum, væru óánægðir út af sektunum — og jeg hefi átt mikið við þess konar mál, heldur var þeim áhugamál að fá að halda fiskinum. Þeir hafa gripið til ýmsra ráða til að losast við hegningu; borið t. d. fram mjög ósennilegar skýrslur um, hvernig á hafi staðið, er þeir voru teknir o. s. frv. Brjef stjórnarráðsins bendir líka á hið sama, að það, sem aðallega eykur óánægjuna, sé ekki sektirnar, heldur hitt, að aflinn er upptækur gjör. Það er aðalhegningin. En í þessu máli, sem nú liggur fyrir, veltur mest á því, að hækka lágmarkið, af því að flest skip eru dæmd í lægstu sektir.

Jeg skal þá snúa mjer að einstökum atriðum frv. í nefndarálitinu á þgskj. 135. 1. gr. nefndarfrumvarpsins er eins og 1. gr. laga nr. 8, 6. apríl 1898, að öðru en því, að það er tekið fram, að það teljist brot, er varpa er í sjó komin. Þessi breyting er frá mjer komin. Sú er orsökin til þess, að þetta ákvæði er sett inn í lögin, að íslenskur skipstjóri, sem staðinn var að veiðum í landhelgi, hefir nýlega flutt sjer það til varnar, að hann hafi ekki dregið vörpuna eftir botninum, heldur að eins látið hana í sjóinn ásamt hlerum, en honum hefði svo snúist hugur og hætt við alt saman. Ef þessi skýrsla er tekin til greina, verður erfitt að koma fram refsingu á hendur skipstjórum fyrir ólöglegar veiðar. Í þessu efni verður ekki farið eftir öðru en skýrslu skipstjóra, sem vart er ábyggileg. Mál þetta er nú fyrir yfirrjetti, og býst jeg ekki við að skýrsla skipstjóra um þetta verði tekin til greina.

Jeg álít þó rjett að setja þetta í lög, til þess að ekki verði vafningar úr, því nú nýlega kom enskur skipstjóri með svipaða vafninga.

Önnur breyting er sú, að hækkað sje lágmark sektanna frá því, sem það er ákveðið í 2. gr. í lögum 6. apríl 1898, úr 1000 kr. upp í 2000 kr.

Í 3. gr. er líka farið fram á að hækka sektalágmarkið úr 200 kr. upp í 500 kr. fyrir samskonar brot og lög nr. 18, 8. júlí 1902 eiga við. Þar er líka önnur viðbót, sem að eins á að vera til leiðbeiningar fyrir dómarann, þótt jeg reyndar gjöri ráð fyrir að flestir dómarar hafi litið svo á sem hjer er gjört ráð fyrir að gjöra eigi. Viðbótin er þessi: „Taka skal þó, þegar sekt er metin, sjerstakt tillit sektinni til hækkunar, til þess, hvort skip hittist þannig á fiskimiði eða annarsstaðar“. Það er jafnan grunsamt, er botnvörpuskip hittist með botnvörpu útbyrðis eða veiðarfæri öðru vísi en í búlka á fiskimiðum eða í nánd við þau, og er stór munur á því eða hinu, þótt það komi fyrir, að verið sje að laga hlera inni á höfnum. Önnur nýmæli eru ekki í 3. gr.

Þá er að minnast á lög nr. 56, 30. júlí 1909, um undanþágu íslenskra botnvörpuskipa frá því, að hafa veiðarfæri sín í búlka, þótt í landhelgi sjeu. Það hefir verið gjörð nokkur grein fyrir því í nefndarálitinu, hvers vegna nefndin telji rjett að afnema undanþágu þessa. Auk þess, sem jeg hefi áður bent á, þá eru tvær höfuðástæður fyrir því, að nefndin hefir borið fram þessa tillögu. Fyrri ástæðan er sú, að undanþágan er óþörf. Því hefir verið haldið fram, að mörg af slysunum á botnvörpungunum yrðu við það, er verið væri að koma veiðarfærunum í lag, setja þau í búlka og annað þess háttar. En eftir skýrslu frá hjeraðslækninum í Vestmannaeyjum er þessu ekki þannig háttað. Skýrsla hans nær yfir 9 til 10 síðustu árin, eða er alt frá 1905. Hann hefir árlega um þetta árabil fengist við mörg meiðsli, er menn hafa orðið fyrir á botnvörpungum, og segir hann, að ekkert slysið stafi af þessu. Hann segir að slysin verði venjulega við það, að strengir slitna eða því um líkt. Það hefir því í upphafi líklega verið að eins viðbára, að hætt sje við slysum við það, að koma veiðarfærum í lag á skipinu; en nú er það að minsta kosti svo, því útveg þessum hefir farið mjög fram síðustu árin að því er allan útbúnað snertir. Það er ekki heldur rjett, að það sje mikil tímatöf og fyrirhöfn að koma veiðarfærunum í búlka, eftir því sem botnvörpuskip eru nú búin út; það er hægt að gera það á fáum mínútum; þarf ekki að ganga fjórðungur stundar til þess. Þetta hefi jeg beint frá fiskimönnum, útlendum að vísu, en jeg veit að það er satt.

Önnur ástæða nefndarinnar, og raunar aðalástæðan, er sú, að það lítur svo illa út með þessa undanþágu, sem Íslendingum er veitt. Hún vekur rjettmæta óánægju hjá útlendu fiskimönnunum. Það getur komið fyrir, að varðskipið komi að tveim botnvörpungum, öðrum íslenskum, hinum útlendum; þeir liggja hver við annars hlið í landhelgi, og eru veiðarfæri þeirra ekki í búlka. Þá er, samkvæmt gildandi lögum, útlenski botnvörpungurinn tekinn og sektaður, en hinn fær að fara frjáls og óhindraður ferða sinna. Þetta vekur óánægju, eins og vonlegt er, og gjörir alt eftirlit örðugra.

7. greinin um það, að skipstjóra þann, sem gjörir sig sekan í ítrekuðu broti, eða broti, er mjög mikið kveður að, megi dæma í fangelsi, auk sekta, er endurtekning gildandi laga, og því ekkert nýmæli. Ákvæði þetta er nokkuð hart, enda veit jeg ekki til, að því hafi nokkru sinni verið beitt, þótt það hafi staðið í lögum síðan 8. júlí 1902, og því verður sjálfsagt ekki beitt nema eitthvað alveg sjerstakt komi fyrir, helst um leið og skip eru tekin. Mætti þá gjöra ráð fyrir, að sakamál yrði höfðað, samkvæmt öðrum lagaákvæðum. En úr því þetta ákvæði hefir að undanförnu staðið í lögunum, þá vildi jeg ekki gjöra það að kappsmáli, að það væri felt burt, þótt jeg vildi það helst.

Að endingu vil jeg leggja það til fyrir nefndarinnar hönd, að frv. á þingskj. 135 verði samþ. í staðinn fyrir frv. á þgskj. 39, sem hjer ræðir um. Skýt jeg því til hv. forseta, hvort ekki sje rjett, að skoða það sem nýtt frv., er þá verður að taka til 1. umræðu, er það verður næst á dagskrá.