20.07.1914
Efri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

69. mál, útibú frá Landsbankanum á Austurlandi

Flutningsm. (Karl Finnbogason):

Jeg flyt þessa tillögu á þing að vilja margra manna á Austurlandi. Jeg tel það sjálfsagt, að tillagan muni verða samþykt. Þó vil jeg láta fylgja henni fáein orð.

Eins og kunnugt er, þá er svo ákveðið í Landsbankalögunum, að stofna skuli útibú frá bankanum, eða einkabanka, á Akureyri, Ísafirði og á Austurlandi. Landsbankinn hefir þegar fyrir alllöngu stofnað útibúin á Akureyri og á Ísafirði, en hvergi á Austurlandi. Ástæður fyrir þessu veit jeg ógjörla, því að jeg er málinu lítt kunnugur. En líklegast tel jeg, að þær sjeu annað hvort þær að landsbankastjórnin hafi ekki álitið þörf á útibúi austanlands, eða að það mundi ekki borga sig, eða þá í þriðja lagi, að hún hafi ekki þótst geta það. Má og vera, að allar þessar þrjár ástæður til samans hafi verið þess valdandi, að Austurland hefir enn ekki fengið neitt útibú frá Landsbankanum.

Jeg ætla nú að athuga ofurlítið allar þessar ástæður, hverja fyrir sig.

Enginn, sem til þekkir, mun efast um, að peninga sje þörf á Austurlandi. Kunnugir vita, að peningaekla hefir verið þar mikil. Það er eftirtektavert, að á síðasta áratug hefir fólki fjölgað drjúgum í landinu, en þó mismunandi mjög, og svo undarlega ber við, að þrátt fyrir alla fjölgunina hefir því fækkað á Austurlandi. Einhverjar orsakir hljóta að vera til þessa. Og mun þá ekki peningaeklan vera ein þeirra? Sökum hennar hafa allar framkvæmdir þar orðið minni og erfiðari. Verslunin hefir orðið óhagfeldari, og örðugt verið að fá peninga til að greiða með verkmannakaup; en það aftur orðið til að draga úr framkvæmdum, bæði á sjó og landi.

Margt mælir með því að það mundi borga sig vel, að stofna útibú á Austurlandi. Jökuldalur og Fljótsdalshjerað eru bestu landbúnaðarsveitir, og svo er um fleiri sveitir þar. Þar eystra eru fiskisælir firðir og fiskimið ágæt fyrir landi, og hafnir einhverjar hinar bestu á landinu. Það er því óhætt að segja, að góð sjeu skilyrðin fyrir atvinnurekstri á Austurlandi. Það ætti því að vera óhætt að leggja þar fram fje til atvinnufyrirtækja, og ólíklegt, að það rentaði sig ekki þar, alveg eins og annarsstaðar í landinu. Það er því naumast af því, að ekki sje þörf á útibúi á Austurlandi, nje af því, að ólíklegt sje að það mundi borga sig, að Landsbankinn hefir ekki þegar stofnað þar útibú.

En þá er það eftir, að hann hafi ekki getað það; hafi ekki haft handbært fje til þess. Um það skal jeg ekkert fullyrða. En hitt veit jeg, að nú hafa verið góð ár á Austurlandi og brýn þörf peningastofnunar; sömuleiðis verð jeg að halda því fram, að það sje bein skylda Landsbankans að stofna sem fyrst hið lögmælta útibú þar, og að einhver ráð verði að finna til að bæta úr örðugleikum þeim, sem á því kunna að vera. Og á það mætti benda, að væri alt það sparisjóðsfje, sem Íslandsbanki. geymir — með vafasömum rjetti, lagt til Landsbankans, þá mundi honum allhægt að stofna öflugt útibú á Austfjörðum.

Jeg þykist nú hafa sýnt fram á, að Austfirðingum sje þörf á útibúi frá Landsbankanum, að það muni borga sig, að honum beri að stofna það, og jafnvel, að hann geti það, ef hann nyti stuðnings til þess.

Vona jeg því, að háttv. deild samþykki tillöguna og stjórnin og bankastjórnin taki hana til greina.