21.07.1914
Neðri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Jón Jónsson :

Af því að eg get búist við að þetta frumv. verði felt, ætla eg, með leyfi háttv. forseta, að fara nokkrum almennum orðum um þetta mál og önnur svipuð.

Mér fellur illa sú stefna, sem verið hefir ríkjandi hér í þinginu undanfarin ár, að setja lög sem ganga afarnærri athafnafrelsi manna. Mörg af þessum lögum, og þar á meðal þau, sem hér er verið að ræða um breytingu á, hafa verið meinlaus, en stefnan, sem þau lýsa, þykir mér, alt fyrir það, all athugaverð. Það er mikil ósamkvæmni í því, þegar þingið gerir háar sjálfstæðiskröfur fyrir þjóðarinnar hönd, en lýsir því svo yfir í öðru orðinu, með lögum sem það setur, að þjóðinni sé ekki treystandi til neins, löggjafarvaldið verði að hafa vit fyrir henni í öllum greinum og á öllum sviðum. Manni gæti dottið í hug í þessu sambandi það sem skáldið segir :

Þeir, sem fyrir sjálfum sér, sér ei trúað geta o. s. frv.

En eg geri nú samt sem áður ráð fyrir því, að þingmenn yfirleitt liti stærri augum á sig. en svo, að þeir treysti sér ekki til neins. En það sýna þeir aftur á móti greinilega með verkum sínum, að einstaklingum út um land trúa þeir ekki til nokkurs skapaðs hlutar og virðast helzt álíta, að landsmenn sé þeir óvitar, að þeir færi sér að voða, ef stjórnarvöldin hefði ekki hönd í bagga með þeim í öllum hlutum.

Þessi lög, sem hér er verið að ræða um og samþykt vóru á þinginu í fyrra, ganga í þá átt, að skipa mönnum að drepa lúsina á sauðfé sínu. Með þessu er sagt, að almenningur hafi ekki vit á, hvað honum sjálfum er fyrir beztu í þessu efni. Ekki geti hann haft hugmynd um, að honum sé gróði að því að þrífa sauðfé sitt. Löggjafarvaldið þurfi að taka þetta upp á sína arma.

Eg veit nú satt að segja ekki, hvaðan þeim vitringum, er hér sitja, kemur þessi speki. Eg fyrir mitt leyti sé enga þörf á þessum sauðfjárbaðanalögum eða öðrum slíkum lögum. Það er svo allsstaðar, þar sem eg þekki til, að enginn ágreiningur er um nauðsynina á sauðfjárböðunum. Menn sjá hvern hagnað þeir hafa af þeim, og það er meir en nægileg hvöt fyrir menn til þess að leggja stund á þær. Og það gera menn og mundu gera, án nokkurra lagafyrirmæla. Það væri þá helzt, að menn hliðruðu sér hjá að baða það fé, sem gengur sjálfala bæði sumar og vetur. En það er líka mikið álitamál, hvort nokkur nauðsyn er á að baða það fé, því það er að öllum jafnaði ekki lúsugt, en á hinn bóginn er áreiðanlegt, að það fé, sem baðað verður, er kulvísara. — Það er reglulegur hallærishugsunarháttur, sem lýsir sér í þessum lögum og ýmsum öðrum, sem þingið hefir samþykt síðari árin. Verð eg að álíta, að þingið hafi gengið fulllangt í þessa stefnu, og hygg eg, að ekki sé séð fyrir afleiðingarnar af því. Gæti eg nefnt mörg lög til dæmis um það, sem eg hefi nú haldið fram, en þess gerist engin þörf, því að allir þekkja þau.

Þetta frumvarp sem hér liggur fyrir er meinlítið. Það fer ekki fram á að grundvallarstefnu laganna sé breytt, en hún er sú, að allir sé skyldir að baða fé sitt. Frumv. fer einungis fram á þá breytingu, að hver einstakur maður fái að ráða hvar og hvernig hann kaupir baðefni sitt. Eg held, að það sé hreinn og beinn óþarfi að láta stjórnarvöldin vera að vasast í öðru eins og þessu. Það er óþarfa fyrirhöfn fyrir þau, og algerlega óþörf og að mörgu leyti óholl umhyggjusemi fyrir landsfólkinu. Það á að geta og getur líka séð, hvað því sjálfu er fyrir beztu, þegar ekki er um flóknara mál að ræða en þetta er. Hér er engin hætta á ferðum.

Sú ástæða hefir verið borin fram, að baðefnið fáist ódýrara ef það er keypt í einu lagi fyrir alt landið. Þetta getur hugsast. En eg skil þó ekki, að það muni svo miklu, að það vegi upp á móti því, að taka öll ráð af almenningi í þessu efni.

Þetta var það sem eg vildi drepa á. Eg álít þetta frumv. svo sanngjarnt, að ekki geti komið til mála, að þingið felli það. Það fer ekki fram á annað, en að sýna almenningi sjáifsagða sanngirni. Það er ekki rétt leið og ekki til annars en að ala upp ómagahugsunarhátt í landinu, að vantreysta öllum almenningi og fara með hann eins og ómyndugt barn.

Eg á bágt með að trúa því, að háttv. þm. Dal. (B. J.), sem er uppeldiafræðingur og fræðimaður í ýmsum öðrum greinum, verði öðrum háttv. þingmönnum samferða um þessa vandræða skoðun.