03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

120. mál, stjórnarskrá

Ráðherrann (H. H.):

Mig furðar á því að heyra ummæli háttv. þm. Dal. (B. J.), þar sem það var öllum ljóst í fyrra og enginn þm. gekk að því gruflandi, að konungur mundi nota þann rétt, er honum var heimilaður með stjórnarskrárbreytingunni, á þann hátt, að ákveða, að málin skyldi borin upp fyrir honum í ríkisráðinu. Það eitt þótti þá skifta máli, að ríkisráðsákvæðið stæði eigi lengur í stjórnarskránni. Með því þótti öllum slegið föstu, að stjórnarskipunarlög vor heimiluðu á engan hátt dönskum stjórnarvöldum neina tilhlutun um sérmál vor, og að það, hvernig uppburði málanna fyrir konungi væri hagað væri íslenzkt sérmál, sem konungur með Íslandsráðherra réði einn. Það, sem eg hefi gert í þessu máli, hefi eg gert í þeirri sannfæringu, að með því væri fullnægt vilja alþingis. Hitt er og víst, eins og eg hefi áður skýrt háttv. þm. frá, að sú ráðstöfun á uppburði málanna, sem opna bréfið greinir, er af konungs hálfu skilyrði fyrir staðfesting hans á þessari stjórnlagabreyting. — Stjórnarskrárbreytingin nær að öðrum kosti ekki staðfestingu konungs.