21.07.1914
Neðri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Framsögum. meiri hl. (Eggert Pálsson):

Mér virðist af umræðunum að minni hl. nefndarinnar hafi meiri styrks að vænta hjá hv. deildarmönnum en meiri hlutinn, þó að ekki sé reyndar enn þá víst, hvað ofan á verður við atkvæðagreiðsluna.

Eg hjó sérstaklega eftir því, sem hv. þm. A.-Sk. (Þ. J.), sem annars vildi ekki styðja skoðanir meiri hlutans, hélt fram, að mikil nauðsyn væri á því, að baðanir færist ekki fyrir hjá neinum, til þess að fáir menn ónýtti ekki með því baðanir heils sveitarfélags. En samt sem áður taldi hann ekki nauðsynlegt, að nokkur ákvæði væri til um það, að eftirlit væri með því að baðefni væri alt af fyrir hendi þegar baða skyldi.

Hann virtist ganga út frá því, að áhugi manna á sauðfjárböðunum væri orðinn svo ríkur, að engin þörf væri á slíku ákvæði. En ef þessi skoðun hans er rétt, þá er eru lögin í heild sinni algerlega óþörf, en þó skildist mér á honum, að hann liti ekki þannig á málið. Ef það nú aftur á móti verður að álítast nauðsynlegt að skylda menn til að baða sauðfé sitt, þá er það um leið sjálfsagt, að eftirlit sé með því, að baðlyf sé jafnan fyrir hendi þegar baða þarf. Þetta sýnist liggja nokkurn veginn ljóst fyrir. Annars þótti mér þessi andmæli á móti eftirliti hreppsnefndanna með því að baðlyf sé ávalt nægileg til, koma sérstaklega undarlega við hjá háttv. þm. A.-Sk (Þ. J.) þegar litið er til staðháttanna í hans eigin kjördæmi. Vér skulum hugsa oss að það kæmi fyrir í Öræfunum, að einn, tvo eða þrjá menn vantaði baðefni þegar komið væri að því að baða, og þeir gæti ekki fengið það hjá nágrönnum sínum, þó að þeir kynni að hafa baðefni rétt handa sjálfum sér eða sínu eigin fé. Hvernig á þá hreppsnefndin að fara að því að láta böðun fara fram, sem háttv. þm. vill þó engan veginn að falli niður hjá neinum? Það er ekki innan handar fyrir Öræfinga að bregða sér til næsta kaupstaðar, austur að Höfn í Hornafirði eða vestur að Vík í Mýrdal. Og hins vegar er alls ekki víst, að þar væri baðefni fáanlegt, þó að þangað væri leitað. Þó að það hefði fengist þar áður, er mikil hætta á, að það væri uppgengið þegar svo væri áliðið. Mér finst þess vegna að eftirlitinu megi ekki sleppa. Það gæti vitanlega orðið til bóta, ef 5. gr. væri feld burtu, að setja inn aðra grein með ákvæði um eftirlit hreppsnefndanna, eins og háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) mintist á. En það liggur nú ekki fyrir, svo að ef frumv. verður samþykt, hlýtur eftirlitið að hverfa úr sögunni, og með því aðalgagnið, sem lögunum er ætlað að vinna. Frá sjónarmiði þeirra manna, sem álíta lögin óþörf vegna þessarar stefnu, virðist ekki óeðlilegt, að þeir vilji gera sitt til að ónýta þau. En það væri samt viðkunnanlegra fyrir þá að koma beint með frumv. um að afnema lögin, heldur en að afnema þennan lappa, sem veldur því, að lögin geta ekki orðið annað en pappírsgagn eitt og ekkert annað.

Þessi stefnumunur milli meiri og minni hluta nefndarinnar stafar ekki af neinni þvingunarlöngun hjá meiri hlutanum, heldur lítur meiri hluti nefndarinnar svo á að ef ekki er talsvert eftirlit haft með mönnum í þessu efni, þá geti það orðið til skaða. Sauðfjárböðunarlögin, eins og þau nú eru, eiga rót sína til þeirrar skoðunar, að almenn þrifaböð muni að minsta kosti halda kláða niðri, þó þau útrými honum ef til vill ekki þar sem hann er kominn. En til þess að þessi tilgangur laganna náist, má ekki veikja það eftirlit, sem hreppsnefndum er ætlað að hafa með framkvæmd baðananna. Þetta eitt og ekkert annað hefir vakað fyrir meiri hluta nefndarinnar. Hann hefir alls ekki kært sig um og kærir sig ekki um að þvinga neinn að óþörfu. En þar sem almenningsheillin krefst þess, þar verður þvingun að koma til, svo hér sem annarstaðar.

Eg man svo ekki eftir neinu frekara, sem fram hefir komið og eg þarf að mótmæla. Það sér hver maður, að það má með engu móti samþykkja þetta frumv. ef menn hugsa sér, að böðunarlögin eigi að gera nokkurt gagn á eftir en sem sagt er það ósköp skiljanlegt frá sjónarmiði þeirra manna, sem vilja gera lögin að pappírsgagni, að knýja þetta frumvarp fram.

Eg skal svo ekki eyða fleiri orðum að þessu, en mun láta sitja við það sem komið er.