24.07.1914
Neðri deild: 20. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Framsögum. meiri hlutans (Eggert Pálsson):

Eg býst nú ekki við, að það hafi mikla þýðingu að fara fleiri orðum um þetta frumv. Forlög þess eru séð fyrir með atkvæðagreiðslunni við 2. umr. Eg skal játa það, að verði breytingartillaga á þskj. 174, ásamt till. á þgskj. 183 samþykt, þá lítur frumv. skaplegar út, en það hefði gert, ef það hefði staðið eins klipt og skorið og það er á þgskj. 170. Aftur á móti get eg ekki séð, að neinar verulegar bætur sé gerðar í frumv. með þessum tillögum. Þótt br.till. á þgskj. 174 verði samþykt, þá get ekki séð, að hún geri það að verkum, sem þó á að vera mergurinn málsins, að lögin verði framkvæmd svo sem til er ætlast, sem sé þannig, að allir baði fé sitt, og slóðarnir geti ekki borið við baðlyfjaleysi. Því að þrátt fyrir þetta eftirlit hreppsnefndar, sem brt. nefnir, þá verða lögin eftir sem áður hrein og skær pappírslög. Brt. felur sem sé hlutaðeigandi hreppsnefndum að hlutast til um, að fjáreigendur panti baðlyf í tæka tíð. Þó er það ekki ljóst, hvernig þetta eftirlit getur orðið að gagni. Eg hugsa mér, að því verði svo varið, að hreppsnefndirnar spyrji fjáreigendur á hreppskilaþingum, eða við slík tækifæri, hvort þeir hafi pantað baðlyf. Eg geri ráð fyrir, að menn svari sem svo : Já, það er engin hætta á því. Það verður séð fyrir því. Og þessi svör verða svo hreppsnefndirnar að láta sér nægja. En þegar svo til kastanna kemur, að böðunin skal fara fram, þá reka þær sig á það í færri eða fleiri tilfellum, að baðlyfin eru engin til, Svo böðunin verður þar af leiðandi að falla niður. Eg get því ekki séð, að þessi brt. sé í raun og veru til nokkurra verulegra bóta, þótt eg á hinn bóginn kannist við, að frumv. líti skaplegar út með henni heldur en án hennar. En sauðfjárböðunarlögin eru með frumv. gerð að engu í raun og veru, hvort sem þessi brt. kemst að eða ekki. Og það er atriðið, sem mestu varðar. Því að eftirlit hreppsnefndanna með böðununum er ómögulegt, nema þær hafi fulla tryggingu fyrir, að æfinlega sé baðlyf til, en þá tryggingu hafa þær ekki, nema þær sjái sjálfar um innkaup baðlyfjanna.