12.08.1914
Sameinað þing: 3. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (2072)

102. mál, handbært fé landssjóðs komið í gull

Flutningsmaður (Einar Arnórsson) :

Svo sem öllum háttv. þm. mun sjálfsagt kunnugt, barst hingað til lands símskeyti í gær um að ófriður væri hafinn milli Austurríkismanna og Serba, og jafnframt allískyggilegar fregnir um það, að þetta mundi leiða til almennrar styrjaldar í Norðurálfu. Þegar þessar fregnir höfðu hingað borist, kom einn þingflokkurinn saman á fund í gær, til að ræða um, hvað tiltækilegast mundi vera að gjöra til að afstýra vandræðum og skorti, er af þessu gæti leitt hjer á landi. Niðurstaðan varð sú, að hann kaus nefnd til að íhuga málið. Tók sú nefnd til starfa þegar í gær, og í morgun bættust við í nefndina tveir menn úr hvorum hinum flokknum, svo að nú skipa hana alls 9 menn. Frá nefnd þessari er svo komin tillaga sú til þingsályktunar, sem hjer er til umræðu.

Jeg tel það við eiga að skýra nokkuð nánar frá störfum nefndar þessarar. Störf hennar hafa beinst að því, að reyna að finna ráð til þess að afstýra sem mest tjóni því, sem hlýtur að leiða af almennri Norðurálfustyrjöld fyrir þetta land.

Einn liður starfa nefndarinnar er tillaga þessi; brátt mun og koma frv. frá henni. Aðalstarf nefndarinnar hefir beinst að tvennu. Annað er það, að landið lendi ekki í sveltu, og er þar tvent til að grípa. Annað að reyna að afla birgða frá útlöndum, og hins vegar að hlutast til um, að eigi sje flutt úr landi, það sem vjer megum síst án vera af gæðum þess. Til þess að sporna við útflutningi matvæla úr landinu um skör fram taldi nefndin nauðsynlegt, að þingið gæfi landsstjórninni heimild til að leggja bann að einhverju eða öllu leyti við útflutningi nauðsynjavöru úr landinu, og miðar frv. það, sem jeg gat áðan um, að því.

Nefndin hefir ráðfært sig við umboðsmann ráðherra — því miður er ráðherra sjálfur ekki viðstaddur — bæði um till. og frv., og veit jeg ekki annað en að hann sje málinu hlyntur. Nefndin hefir haft stuttan tíma til starfa, og því hætt við, að nokkur ljóður kunni að vera á gjörðum hennar, þótt hún hafi haft þann undirbúning undir tillögu sína og frumv., sem unt var. Meðal annars hefir hún ráðgast við þá kaupsýslumenn, umboðssalana, sem líklegastir þóttu til að geta gefið upplýsingar um, hvernig tiltækilegast mundi að ná í vörur frá útlöndum. Þessir menn hafa getað gefið oss lítilsháttar upplýsingar. Þá hefir nefndin og fengið nokkra vitneskju um horfurnar af tveim símskeytum, sem hingað hafa borist í dag. Annað skeytið barst til Ísafoldar og Morgunblaðsins, og mun öllum háttv. þm. kunnugt efni þess. Hitt skeytið var til stjórnarráðsins frá íslensku stjórnarráðsskrifstofunni í Kaupmannahöfn og mun það ókunnara ýmsum háttv. þm., og vil jeg með leyfi hæstv. forseta lesa það upp. Það er þannig:

„Konfererað við utanríkisstjórn í dag; útlitið afleitt alstaðar; korn stórstígur; símar aftur um kol; ekki mobiliserað hjer enn; en um exportteppu óvíst“. Svo kemur það sem oss varðar mestu: „Jeg tilraader Forsyning hurtigst. — Íslandskontor.“ Nefndin hefir nú í fljótum hasti reynt að afla sjer upplýsinga um, hvað landið muni vanhaga mest um. Hún býst við því, að þótt almennur Norðurálfuófriður hefjist, þá muni hann varla standa mjög lengi. Hún telur það nauðsynlegt að byrgja landið upp með 3 mánaða forða; vonar að það muni nægja. Í samráði við þá kaupsýslumenn, sem jeg gat áðan um, hefir nefndin gjört mjög lauslega áætlun um, hvers mundi þurfa með til að fullnægja þessu, og hvaðan vænlegast mundi að fá vörurnar. Taldist svo til, að landið mundi verða nokkurn veginn birgt til 3 mánaða með steinolíu, salt og kornvöru, fyrir hjer um bil 1,000,000 kr, með vanaverði. Þá kom næst til athugunar, hvaðan vörur þessar mundu fáanlegar. Eftir upplýsingum þeim, sem nefndin fjekk, má telja líklegast að margar þeirra verði helst fáanlegar frá Ameríku, svo sem hveiti, hrísgrjón, haframjöl og steinolía, ef á þyrfti að halda, þó að nefndin hins vegar gjöri ráð fyrir, að steinolíufjelagið geti sjeð fyrir henni. Kol er ekki ólíklegt að hægt mundi að fá frá Bretlandi, og ekki víst að mikil ástæða sje fyrir stjórnina að hlutast til um kolaútvegun; kolakaupmennirnir mundu annast það. Frá Noregi má vænta, að hægt sje að fá rúg og rúgmjöl. Þaðan má gjöra ráð fyrir að þyrfti að fá 11–1200 tons af rúgi og rúgmjöli, eða einn til tvo stóra farma, en frá Ameríku 1000 tons af kornvöru, og yrði steinolía og vjelaolía líka tekin þaðan, má gjöra ráð fyrir að hun yrði alls um 850 tons, eða samtals þaðan um 1850 tons, og yrði það einn allstór skipsfarmur. Þetta er að sjálfsögðu ekki annað en lausleg bráðabirgðaaætlun, en jeg álít þó rjett að skýra háttv. þm. frá henni.

Ástæðan fyrir því að till. þessi er komin fram, er sú, að seðlar vorir eru ekki gjaldgengir erlendis, annarstaðar en í Danmörku og ef til vill í Noregi. Því er sjálfsagt að reynt sje að fá skift handbæru fje landssjóðs í gull, svo að landsstjórnin hafi á reiðum höndum gjaldeyri, sem víst er að gjaldgengur sje, hvar sem vörur kann að þurfa að kaupa. Að vísu má gjöra ráð fyrir að erfitt verði að afla gullsins; þó virðist oss eigi mega leggjast undir höfuð að reyna það. Önnur ástæða fyrir því, að tillaga þessi er komin fram, er sú, að búast má við því að rentutap leiði af því, að víxla handbæru fje landssjóðs í gull, og vildi nefndin með tillögunni firra landsstjórnina ámæli fyrir þær gjörðir hennar, ef til kæmi.

Að endingu tek jeg það fram, að nefndin treystir því, að bankarnir muni gjöra alt, sem þeir geta, til þess að greiða fyrir málinu.

Finn jeg svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið að sinni.