30.07.1914
Sameinað þing: 3. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

102. mál, handbært fé landssjóðs komið í gull

Hannes Hafstein :

Það er auðvitað ágætt að vera skjótur til ráða, þegar vanda ber að höndum; en hitt er eigi minna um vert, að hlaupa þá ekki of mikið á sig. Enn hygg jeg töluverða ástæðu vera til að ætla, að ófriðarskeytin til blaðanna sjeu nokkuð ýkt. Það er t. d. hálf ólíklegt, að þegar sje svo kom ið að Hollendingar sjeu þess búnir, að fara að veita sjónum inn á hið frjóva land sitt, eins og ein símfregnin hermir. Mjer skilst og að ófriðarhræðslan, eða hræðslan við þá allsherjar hættu, sem yfir vofi, sje ekki jafnmögnuð í skeytinu frá stjórnarskrifstofunni í Höfn eins og í skeytunum til blaðanna. En þótt hættan sje ekki jafnmikil og skeytin benda á, þá getur eigi að síður verið vit í því, að reyna nú þegar til að byrja á undirbúningi undir að tryggja landið sem best fyrir skorti, og því er vel að þessu sje sem fyrst gaumur gefinn. En jeg efast um að sá vegur sje rjettur, sem stefnt er inn á með þingsályktunartillögunni, eins og hún liggur fyrir; og eftir því sem orð hennar liggja til, gæti hún að minni hyggju jafnvel verið hættuleg. Þess er fyrst að gæta, að ef vjer fórum að kaupa forða frá útlöndum, þá mundi það naumast forsvaranlegt, að landssjóður, meðan annars er kostur, færi að senda hjeðan úr landinu gull fyrir hann, heldur mundi talið sjálfsagt, meðan unt er, að borga hann með ávísunum á erlenda banka. Í því efni geta bankarnir hjerlendu orðið oss að liði, því að svo er hamingjunni fyrir að þakka, að þeir eiga töluvert fje hjá bönkum erlendis, sjerstaklega Íslandsbanki, og standa í tryggum viðskiftasamböndum við þá. Auk þess eigum vjer nokkurt fje hjá aðalfjehirslu Dana. En þar næst er það að athuga, að eins og tillagan liggur fyrir, verður hún naumast skilin öðru vísi en svo, að meiningin sje að landsstjórnin skuli heimila, að Íslandsbanki innleysi með gulli alla þá seðla hans, sem landssjóður liggur með, eftir því sem til hrekkur, og það væri sama sem að eyðileggja bankann og gjöra sjer það verkfæri ónýtt í bráð. En þó þetta sje ekki tilætlunin, þá er víst, að það er fullkomið óráð undir þessum kringumstæðum, að skerða nokkuð þann málmforða, sem Íslandsbanki hefir, nema alt aðrar ráðstafanir væru jafnframt gjörðar. Afleiðingin af því, að gullforðinn væri að nokkru skertur, þótt ekki væri hann allur rifinn út, mundi meðal annars verða sú, að bankinn yrði að draga inn svo og svo mikið af seðlum sínum, og er fljótsjeð hvílíkur hnekkir það gæti orðið fyrir viðskiftalíf hjer innanlands, sem einnig þarf að hugsa um.

Það rjetta í hugsun háttv. tillögumanna er það, að tryggja landinu, að hægt verði að borga vistaforða þann og aðrar birgðir, sem gjört er ráð fyrir að kaupa þurfi erlendis, til að fyrirbyggja hallæri í landinu, svo að landið verði ekki af kaupum fyrir þá sök að gjaldeyri skorti; en það virðist mjer eiga að gjöra með því að vinda sem bráðastan bug að því, að búa svo um, og fá það fastmælum bundið, að vjer getum ráðstafað því fje, sem útlend inneign og lánstraust íslenskra banka og landssjóðs nemur, til að borga það, sem landssjóður þarf að kaupa á þeim stöðum erlendis, þar sem vörurnar verða keyptar.

Jeg held því að vjer ættum ekki að samþykkja tillögu þá, sem hjer liggur fyrir, heldur fyrst um sinn skora á stjórnina að gjöra í þessu máli það sem unt er, og er víst óhætt að treysta því, að hún muni fara hyggilega að ráði sínu.