30.07.1914
Sameinað þing: 3. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (2078)

102. mál, handbært fé landssjóðs komið í gull

Umboðsm. ráðherra (Kl. Jónsson):

Þegar mjer var sýnd þessi tillaga áðan, þá skildi jeg hana svo, að meiningin væri sú, að landsstjórnin skyldi taka alt handbært fje landssjóðs — jeg held það sje liðugar 200 þús. krónur — og fara með það í bankana og biðja um gull í staðinn. Jeg bjóst ekki við að mikið gull væri til í Landsbankanum, en að hann þó mundi láta það, sem hann hefði. En jeg hjelt að það mundi ef til vill vera meira gull til í Íslandsbanka en hann þyrfti á að halda, og að þar mundi verða hægt að víxla talsverðu af seðlum í gull. Ástæðan til þess að nauðsynlegt getur verið að hafa gull, er sú, að mínu áliti, að vel getur verið að síma- og póstsambandi við umheiminn verði slitið. Getur þá rekið að því, að nauðsynlegt sje að senda skip, eða einn af trollurum okkar, til þess að kaupa inn nauðsynjavörur; en það er óhjákvæmilegt að hann hafi gull meðferðis. Hversu mikið fje þetta mundi geta orðið veit jeg ekki, en jeg hjelt að það mundi geta orðið svo mikil upphæð, að hún kæmi að einhverju gagni, og að því væri rjett að samþykkja tillöguna. Eins og menn vita ganga ekki seðlar vorir annarstaðar, og því er nauðsynlegt að hafa gull á reiðum höndum.

Mjer er ekki kunnugt, hversu mikið gull bankarnir hafa fyrirliggjandi, og væri æskilegt að fá upplýsingar um það.