30.07.1914
Sameinað þing: 3. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (2083)

102. mál, handbært fé landssjóðs komið í gull

Guðmundur Hannesson:

Jeg hefi ekki haft tækifæri til þess að tala við nefndarmenn, og vil því spyrja, hvort nefndin hefir kynt sjer nokkuð hversu miklar matarbirgðir við höfum nú í landinu. Annaðhvort skellur Norðurálfuófriðurinn yfir eða ekki. Verði engin styrjöld, þá er okkur við engu hætt. Fari nú svo, að til almenns ófriðar dragi, þá mun okkur þó ekki stafa nein hætta af honum, nema hvað verð á vörum getur hækkað að mun. Hjer í Norðurhöfum mundi öllum skipaferðum vera óhætt og póst- og símasamband við umheiminn haldast. Ef til ófriðar kemur, þá held jeg að fari líkt og ef brennur hjer í bæ. Allir snúa huga sínum þangað sem eldurinn er, og enginn hirðir um annað. Ef almennur ófriður verður, þá er ekki ólíklegt að það stríð standi skamma stund, áður en yfir líkur. Sumir fræðimenn í þeirri grein giska á, að úrslit fáist á 2 mánuðum, miðað við ófriðinn milli Þýskalands og Frakklands.