30.07.1914
Sameinað þing: 3. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (2084)

102. mál, handbært fé landssjóðs komið í gull

Eiríkur Briem:

Jeg vildi leyfa mjer að spyrja, hvernig eigi að skilja það, að stjórninni er boðið að víxla fje landssjóðs í gull; hvort það er meiningin að fá alt það gull hingað til lands, eða geyma það í Englandi. Það er vel hugsanlegt, að sambandinu milli Íslands og Kaupmannahafnar verði slitið, en það er óhugsandi, að sambandinu milli Íslands og Englands verði slitið. Floti Englendinga og sambandsríkja þeirra er svo miklu meiri en floti hinna, að það er ómögulegt annað en að Englendingar geti bæði siglt hingað og yfirleitt um öll höf veraldarinnar. Mjer sýnist því ekki heppilegt að safna gullinu hingað. Mjer virðist að það væri best komið í Englandsbanka, svo að við gætum borgað þær nauðsynjar okkar, sem við kaupum ytra, með ávísun til seljandans á Englandsbanka. Mjer virðist orðalag tillögunnar ekki útiloka þetta, og vil að eins beina þeirri spurningu til nefndarinnar, hvort þetta sje ekki rjett skilið hjá mjer.