30.07.1914
Sameinað þing: 3. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (2087)

102. mál, handbært fé landssjóðs komið í gull

Karl Einarsson:

Jeg vil leyfa mjer að beina þeirri spurningu til háttv. flutningsmanna, hvort þeir vilji ekki laga tillöguna, svo að hún verði aðgengilegri? Hjer er ekki annað gull til í landinu en það, sem er í Íslandsbanka, og eru það um 6–700 þús. kr. Það er nú upplýst, að fyrir skömmu hafði bankinn úti um 1,600 þús. kr. í seðlum. Svo að málmforði hans er ekki meiri en hann þarf að hafa til tryggingar seðlum sínum. Ef nú þetta gull yrði tekið frá bankanum, þá yrði hann að draga inn seðla sína.

Á umræðunum hefir mjer skilist, að hægt mundi að fá gull á þann hátt að bankarnir gæfu landssjóði ávísun á það fje, sem þeir eiga hjá útlendum bönkum, og jeg held að það væri heppilegt að þetta kæmi beint fram í tillögunni.

Eins og tillagan er nú orðuð, sje jeg ekki annað en landsstjórnin sje neydd til að taka það gull, sem hún getur náð í. En að taka alt gull frá Íslandsbanka, er sama sem að eyðileggja bankann, því að nú eiga menn 3 miljónir inni hjá bankanum í sparisjóðsfje, sem margir mundu vilja fá.

Jeg vil því skjóta því til flutningsmanna hvort þeir vilji ekki laga tillöguna í þá átt, sem hjer er farið fram á.