30.07.1914
Sameinað þing: 3. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

102. mál, handbært fé landssjóðs komið í gull

Bjarni Jónsson :

Mjer sýnist þessi nefnd eiga þakkir skildar fyrir það, hve fljótt hún hefir komið með tillögur sínar. Jeg vil reyndar vona, eins og háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.), að vel rætist úr þessu og ekkert verði af ófriði, en það er of seint að hertygjast þegar á hólminn er komið. Það hefir nefndin sjeð og því hefir hún brugðið svo skjótt við. — Mjer sýndist í fyrstu, eins og háttv. þm. Vestm. (K. E.), till. vera ákveðnara orðuð, svo sem bein skipun eða áskorun til stjórnarinnar um að víxla öllu handbæru fje landssjóðs í gull, en við umræðurnar sá jeg að með þessu orðalagi: „svo sem unt er og nauðsyn krefur“, eru stjórninni gefnar lausar hendur. Með þessu orðalagi er tillagan meinlaus, og tel jeg óhætt að samþykkja hana. Hið eina hættulega við málið er það að tillagan kom fram. Hitt nægði, að segja við stjórnina: „Þetta skaltu gjöra“. En úr því hún er komin fram, þá er rjettast að samþykkja hana, því að verði nú tillagan feld, má skoða það svo sem þingið vilji ekki að stjórnin gjöri neitt í þessu máli. — Úr þessari hræðslu hjer á Íslandi, út af því að þingið sest á rökstóla svo seint á degi, gjöri jeg ekki mikið. En það er ekki gott að treysta því, að ófriður standi ekki nema 2 mánuði. Jeg trúi ekki á það og hygg að seigla Englendinga, Frakka, Þjóðverja og Rússa

og fleiri þjóða sje meiri en svo, að hún endist ekki nema 2–3 mánuði. Jeg gæti fult eins vel ímyndað mjer, að það liðu 2–3 ár áður en dautt yrði í kolunum. Mjer finst sjálfsagt að gjöra alt, sem gjört verður skynsamlega, til þess að tryggja landið gegn hættu, sem stafað getur af yfirvofandi ófriði, og jeg tel skynsamlegt að samþykkja þessa tillögu.