24.07.1914
Neðri deild: 20. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Sigurður Sigurðsson : Það er virðingarverð viðleitni, sem háttvirtur flutningsm. hefir sýnt í því, að bæta bæði sitt eigið frumvarp og breyt till. En þrátt fyrir allar þessar tilraunir hans er lítið gagn að þeim þegar öllu er á botninn hvolft, og breytingarnar sízt til bóta frá núgildandi lögum um sauðfjárbaðanir, heldur jafnvel að mun til hins lakara. Eg gæti vel hugsað mér, að ef til vill hefði þurft sérstök lög um að þrífa sauðfé með böðum í Eyjafjarðarsýslu, en út í það skal eg ekki fara. En á því furðar mig, að sá háttv. þm., sem ætíð hefir staðið upp hér í deildinni til að mótmæla því að breyta lögum frá síðasta þingi, og talið það alveg óviðeigandi að breyta nýjum lögum, skuli styðja þessa breytingu. Flest lög frá þinginu í fyrra eru lítt reynd, en þessi lög um sauðfjárbaðanir eru enn alls ekki komin til framkvæmda. Það hefði því verið eðlilegast, að þetta frv. hefði mætt andmælum deildarinnar af þeirri ástæðu, að ekki mætti breyta nýjum lögum. Og einkennilegt er það, að þeir sem vilja endilega breyta þessum lögum, skuli sækja það svo fast, sem raun er á. Minna má á það, að frumvarpið um sauðfjárbaðanir var í fyrra samþykt hér við aðra umræðu með 18:6 atkvæðum að viðhöfðu nafnakalli, og sögðu þeir þá báðir já, háttv. flutningsmaður og háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.), sem nú vilja endilega breyta þessum lögum.

Hitt var satt, að háttv. þm. Dal. (B. J.) var á móti þeim þá eina og nú. Eg kannast við það, að með öllum þessum breyt.till. háttv. flutningamanns sé frumvarp hans fært til betra vegar, ef þær verða samþyktar. En hins vegar lít eg svo á, að þessi bót á núgildandi lögum sé einskis verð, eins og áður er tekið fram, og nú síðast af háttv. 2. þm. Rangv. (E. P.). Eg mun því greiða atkv. á móti frumv.