31.07.1914
Sameinað þing: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (2094)

102. mál, handbært fé landssjóðs komið í gull

Flutningsmaður (Einar Arnórsson); Við þessa þingsályktunartillögu, eins og hún var rædd í gær, hafa komið fram brtt. á þgskj. 292, 293 og 296.

Brtl. á þgskj. 293 er frá flutningsmönnunum, og er hún að sumu leyti að eins orðabreyting. en að nokkru leyti efnisbreyting, þar sem því er bætt við, að gullið skuli annaðhvort geyma hjer á landi eða í Englandsbanka. Þessu var bætt við fyrir bendingu eins háttv. þingmanns, sem þótti vissara að taka það fram, að gullið þyrfti ekki endilega að geymast hjer á landi. Jafnvel þótt nefndin liti svo á, að stjórninni væri heimilt að geyma gullið erlendis, þó að ekkert væri um það sagt í tillögunni, þá fanst henni engin ástæða til að hafa á móti því, að það stæði þar.

Brtt. á þingskjali 292 er frá háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) og er hún að mestu leyti samhljóða tillögu okkar. Vil jeg þess vegna skjóta því til hans, hvort ekki mundi rjettast að hann tæki hana aftur.

Þá er brtt. hv. þingmanns Vestm. (K. E.) á þingskjali 296. Hún fer í rauninni ekki fram á neina verulega efnisbreytingu. Jeg kann þó ekki allskostar við orðalagið, þar sem sagt er að landssjóður skuli skifta handbæru fje sínu og bankanna, eða því fje, sem bankarnir kunna að geta útvegað í útlöndum, og koma því síðan til geymslu í Englandsbanka. Mjer finst þetta orðalag ekki allskostar geta staðist. Landsstjórnin hefir ekki heimild til að skipa bönkunum að gjöra neitt í þessu efni. Eftir tillögunni, eins og hún var í gær, hafði landsstjórnin frjálsar hendur að fara eins að og henni sýndist tiltækilegast. Svona hluti verða menn að gjöra í trausti til þess, að stjórnin gjöri sæmilega tryggilegar og heppilegar ráðstafanir. Jeg býst ekki við að háttv. þm. Vestm. (K. E.) hafi komið fram með þessa breytingartillögu sína af því, að hann hafi búist við, að stjórnin gripi til neinna örþrifaráða gegn bönkunum hjer, heldur miklu fremur til þess að það sæist skýrt, að þingið ætlaðist ekki til þess. En þá er orðalagið ekki sem heppilegast, enda engin ástæða til að vantreysta stjórninni að ráða fram úr þessu á skynsamlegan hátt.