31.07.1914
Sameinað þing: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

102. mál, handbært fé landssjóðs komið í gull

Karl Einarsson:

Jeg kom fram með þessa breytingartillögu mína, eins og háttv. 2, þingmaður Árn. (E. A.) tók fram, til þess að það kæmi skýrt fram, að þingið ætlaðist ekki til, eða teldi það ekki nauðsynlegt, að landsstjórnin legði undir sig allan málmforða, sem hjer er í landinu, eða með öðrum orðum, jeg vildi að það sæist skýrt, að það væri ekki tilgangurinn eða eiginlegi tilgangurinn. Raunar var jeg ekki hræddur um að stjórnin mundi finna upp á því, að skilja tillöguna svo, heldur þóttist jeg viss um, að fólk mundi verða alment hrætt um að þetta yrði gjört. Hvað því viðvíkur, ef tillagan er orðuð eins og jeg hefi stungið upp á, þá megi stjórnin ekki útvega gull á annan hátt en þar er tekið fram, þá finst mjer það ekki ná nokkurri átt. Meðal annars má benda á, að svo gæti farið, að stjórninni væri ekki einungis heimilt, heldur jafnvel skylt, að útvega allan þann gullforða, sem hún gæti komist yfir, ekki síður í bönkunum hjer heldur en annarstaðar. Það er ekki hægt að setja neitt bann fyrir stjórnina, hvernig hún megi ekki haga sjer í þessu máli. Tillagan getur ekki verið annað en leiðbeining fyrir hana, en þá tel jeg rjett að það komi skýrt fram, að þingið álíti ekki þörf á því nú, að hún dragi undir sig, alt gull, sem til er í landinu. En það vil jeg taka fram, að svo getur staðið á, að stjórninni sje það ekki að eins heimilt, heldur skylt. Getur hún sjálf gefið út lög, sem heimila það. Jeg vona að til þess þurfi ekki að koma, en allur er varinn góður. Og jeg álít tillöguna varlegar orðaða, ef hún verður orðuð á þann hátt, sem jeg hefi stungið upp á.