12.08.1914
Sameinað þing: 8. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

122. mál, gerð íslenska fánans

Guðmundur Hannesson :

Jeg verð fyrir mitt leyti að mótmæla því alvarlega, að fundur þessi sje haldinn fyrir lokuðum dyrum. Áheyrendurnir hafa flykst að, og er leitt að vísa þeim öllum frá. Jeg gjöri ekki ráð fyrir, að hjer þurfi neitt fram að fara, sem dylja þurfi almenning. Að lokum þykir mjer vænt um að hafa votta og áheyrendur að því, sem fram fer, því svo mikill hiti er nú í sumum mönnum út af máli þessu, að síst spillir, þó áheyrendur sjeu og tillit tekið til þeirra.

Fleiri beiddu sjer ekki hljóðs, og bar forseti þessa ósk undir atkvæði.