12.08.1914
Sameinað þing: 8. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (2103)

122. mál, gerð íslenska fánans

Um þrjár fánagerðir var rætt í nefndinni. Og fleiri gerðum veit jeg ekki til að haldið hafi verið fram á þinginu. Gerðirnar eru öllum þm. kunnar. Þær eru:

1. Gerðin sem notuð hefir verið.

2. Sama gerð með hvítri stjörnu fimmblaðaðri í efri stangarreit.

3. Sama gerð með rauðum krossi innan í hvíta krossinum, eða tillaga fánanefndarinnar, er skipuð var 30. desember 1913.

Með öllum þessum gerðum mælir nokkuð, en móti líka nokkuð. Um elstu gerðina er það að segja, að hún hefir óneitanlega mest fylgi, og var nefndin sammála um það. Sannanir fyrir því, að þessi gerð hafi mest fylgi, eru þessar meðal annars:

Í fyrsta lagi liggur það í hlutarins eðli, að sú gerð, sem menn hafa notað í nokkur ár, sje orðin kærari mörgum en óþekt gerð og ónotuð.

Í öðru lagi hefir gerðin verið samþykt hjer á þingi hvað eftir annað.

Í þriðja lagi sína áskoranir þingmálafunda og fjelaga bæði fyr og síðar, að gerðin hefir fylgi. Og í fjórða lagi má benda á skýrslu fánanefndarinnar, sem ótvíræða sönnun þess, að þessi gerð er öðrum gerðum kærari þjóðinni. Heil fjelög senda áskoranir um að hafa hana. Allar aðrar uppástungur um gerðina eru frá einstökum mönnum og sárfáir með þá sömu. Móti þessari gerð mælir:

Í fyrsta lagi það, að mótstaða hefir verið gegn henni frá upphafi af hálfu einstakra manna, og jafnvel flokka, og sú mótstaða er sterk enn. Ýmsir verða því óánægðir, ef hún verður ofan á.

Í öðru lagi eru bornar miklar brigður á það, að konungur vilji samþykkja hana. Og í þriðja lagi er hún af ýmsum talin óhentug. Verður ekki neitað að nokkur rök sjeu til þess, þó ekki sjeu þau mjög mikilvæg. Þá er stjörnufáninn.

Þeim, sem fastast hjeldu fram gömlu gerðinni, kom saman um, að best væri að breyta henni sem allra minst, ef nauðsyn yrði að breyta. Það mundu vinir gamla fánans sætta sig best við, og óvinir hans mættu við það una, þegar hann væri úr sögunni sjálfur hvort sem væri.

Með stjörnufánanum mælir þá þetta, sem jeg nú hefi nefnt, fyrst og fremst.

Hann virðist líklegastur til samkomulags. Gegn honum hefir enginn andróður verið hafinn. Og þjóðin hefir enga sjerstaka ástæðu til að taka honum með óvild, þar sem hann er nýr með öllu. Auk þessa er stjarnan skýrt og fagurt einkenni, svo ekki getur komið til mála að halda því fram, að þessi fáni yrði of líkur fána annara þjóða eða torkennilegur, eins og sagt hefir verið um gamla fánann.

Enn fremur má benda á það, að ljett verk er að breyta honum, ef þess yrði einhvern tíma kostur, mjög ljett að nema stjörnuna burtu, ef menn halda trygð við gamla fánann. Enda líka auðgjört fyrir þá, sem eiga gamla fánann nú, að bætai hann stjörnunni.

Með þriðju gerðinni — rauða krossinum — mælir það, að hún er glögg og all auðkennileg; ýmsum þykir hún fegri en báðar hinar, og nokkrir leggja allmikið kapp á að koma henni fram. En það sem mestu skiftir er, að þessi gerð á víst samþykki konungs.

Móti mælir hitt, að hjer er um að ræða gagngjörða breytingu á gamla fánanum, og ákveðinn andróður er þegar hafinn gegn gerðinni. Hún er því ekki líkleg til sátta nje samkomulags, heldur þvert á móti.

Þessi er í fáum orðum aðstaða þessara þriggja gerða.

Hvernig á þingið þá að fara að því, að vinna málinu, eins og því nú er komið, sem mest gagn ?

Best væri að koma sjer einhuga saman um eina gerð, en það lítur út fyrir, að engum hafi komið til hugar að þetta væri mögulegt. Því hefir alls enginn hreift. Rökin til þessa hygg jeg liggi í því, að menn skiftast í tvo ákveðna flokka um litina á fánanum. Sumir vilja hafa þá tvo, en aðrir þrjá, og hvorugir slá undan fyr en teflt er til þrauta.

Nú er það skylda vor að taka málið eins og það liggur fyrir, og gjöra alt sem í voru valdi stendur, til þess að leiða það vel til lykta. En til þess, að svo megi verða, verðum vjer að taka alt það tillit, sem auðið er, til allra, sem hult eiga að máli.

Næst því besta, tillögu þingsins um eina gerð að eins, er tillaga um tvær gerðir.

Það voru þeir, sem vildu rauða krossinn fúsir á að aðhyllast. Og það jafnvel hvort sem gamli fáninn eða stjörnufáninn væri önnur tillagan.

En þetta vildum við ekki hinir. Okkur virðist augljóst, að tilgangslaust sje að senda gamla fánann einan með rauða krossinum.

Því, sje það satt, sem sagt hefir verið, að konungur hafi neitað að samþykkja gamla fánann, en lofað að samþykkja rauða krossinn, þá er augljóst, hvernig fara muni, ef þeir fánar verða sendir honum einir. Eða hver getur búist við því, að konungur samþykki það, sem hann hefir neitað, en neiti að samþykkja það, sem hann hefir lofað, ef um það tvent er að velja og ekkert annað? Örðugt er að sjá ástæðu til þessa. Og væri vafalaust rjettara og hreinlegra að senda rauða krossinn einan.

Að senda stjörnufánann einan með rauða krossinum, gat komið til mála, og væri ekki ósigurvænlegt fyrir hann (stjörnufánann). En bæði vegna þess, að brigður eru bornar á það, að konungur sje alveg ófáanlegur til að samþykkja gamla fánann — þó jeg fyrir mitt leyti sje vondaufur um, að hann gjöri það hjer eftir — og líka vegna hins, að stjörnufáninn er honum ekki jafngóður, þó betri sje en rauði krossinn, að okkar dómi, þá viljum við ekki útiloka gamla fánann með öllu, en teljum skyldu vora að gjöra síðustu tilraun til að fá hann, fella hann ekki nje flýja undan honum, fyr en barist er til þrautar.

Við leggjum til, að konungur fái að velja um allar gerðirnar þrjár.

Það er síðasta tilraun til að fá gamla fánann löggildan. Það er eina leiðin til að gefa öllum þingmönnum kost á að greiða atkvæði með þeirri gerð, er þeir kjósa helst eða næst helst. Og mikið væri með því unnið til samkomulags og friðar um þá gerð, er ofan á yrði, að allir þingmenn greiddu þeirri tillögu atkvæði, er send yrði konungi. Það er í þriðja lagi trygging fyrir því, að við fáum einhverja gerðina löggilda, þar sem einni er lofað af konungi. Og það er í fjórða lagi samkvæmt ósk og vilja ráðherra þess, er á að flytja málið fyrir konungi.

Tillagan stefnir því að því, að gjöra svo sem verða má að vilja þjóðar, þingmanna, ráðherra og konungs. Og lengra verður varla seilst til samkomulags.

Verði hún samþykt — helst í einu hljóði — þá eru mestar líkur til að minst, óánægja leiði af úrslitunum, hver sem þau verða.

Og það á að vera markmið þingsins í þessu máli. Það á að reyna að útvega þjóðinni fána, sem hún geti hafið með almennri ánægju — eða sem minstri óánægju — strax þegar hann er fenginn.

Jeg vil því að lokum mælast til þess, að háttvirtir flutningsmenn tillögunnar á þingskjali 441 taki hana aftur. Þá ættum við þó einu sinni kost á að greiða allir atkvæði einni tillögu. Með því ynni þingið mest gagn þessu máli, því það gengi á undan með góðu eftirdæmi í því að sameina þjóðina um þann fána, er hún fær, og á að bera og berjast undir á komandi árum.