12.08.1914
Sameinað þing: 8. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

122. mál, gerð íslenska fánans

Bjarni Jónsson:

Jeg skrifaði undir nefndarálitið í fánamálinu með fyrirvara. Fyrirvarinn var sá, að þegar þingið gjörir nú tillögur um þennan fána, og gengur með því móti að konungsúrskurðinum 22. nóv. 1913, þá sje það gjört með þeim hug og þeim skilningi, sem jeg lýsi nú yfir fyrir mína hönd og allra þeirra, sem mótmæla ekki :

Þótt Alþingi gjöri nú tillögur um gerð á íslenskum fána samkvæmt konungsúrskurði 22. nóv. 1913 og sýni með því, að það láti óátalið, þótt framkvæmd verði á þeim konungsúrskurði, þá þykir því þó eigi með honum fullnægt rjettum kröfum Íslendinga til farfána. Það tekur við þeim hluta rjettar síns, sem látinn er af hendi og leyfður í konungsúrskurði þessum, en geymir landinu fullan rjett til þess að fá farfána (kaupfána), er sje þjóðernismerkt íslenskra skipa í öllum heimsins höfum og höfnum.

Þá vil jeg og leggja áhersla á það, að Alþingi hlýtur að hafa stjórnskipulegan rjett til þess að setja lög um fána Íslands, því að öll lög þar um eru sett af Alþingi og konungi, eða, sem nú, af ráðherra Íslands og konungi.

Þessi var minn fyrirvari, og mega þeir nú mótmæla honum sem vilja.