12.08.1914
Sameinað þing: 8. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (2108)

122. mál, gerð íslenska fánans

Hannes Hafstein :

Það er að eins örstutt fyrirspurn til hæstv. ráðherra, sem jeg leyfi mjer að bera fram. Hæstv. ráðherra lagði mikla áherslu á að allar þrjár gerðir fánans væru samþyktar af þinginu. Nú er mjer spurn : Er það meiningin, að konungsúrskurðurinn eigi að ákveða að íslenska flaggið eigi að hafa þrennskonar gerð, þannig, að menn megi nota það á víxl, eða það af þeim, sem þeim líkar best í hvert skifti, eða á konungsúrskurðurinn að slá fastri einhverri einni fánagerð Sje svo, sem jeg hygg, hver á þá að skera úr því ásamt konungi, hverja gerðina velja skuli? Vjer höfum skilið svo, að úrskurðinn ætti að gjöra eftir tillögum Íslandsráðherra, og að hann því nauðsynlega yrði að aðhyllast einhverja eina gerð, áður en hann leggur tillögur sínar fram fyrir konung. Ef þetta er rjett skilið, þá væri æskilegt að fá að vita með hvaða gerðinni ráðherra mundi mæla.