12.08.1914
Sameinað þing: 8. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (2109)

122. mál, gerð íslenska fánans

Ráðherra (Sigurður Eggerz):

Háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) taldi tillöguna um þrjár fánagerðir vott sundrungar. Ekki þarf þó svo á að líta, því ef þingið samþykkir í einu hljóði, að á milli þeirra skuli velja, þá er það einmitt einingarvottur hjá því og samlyndis. En beri það vott um sundarlyndi, ef þrjár gerðir eru samþyktar, þá er það og vottur hins sama, þó eigi sjeu samþyktar nema tvær þeirra. Háttv. þingmaður. Húnv. (G. H.) talaði um galla á bláhvíta fánanum. Má vera að hann sjái þá marga, en ljettir virðast mjer þeir flestir á metunum, sem taldir hafa verið. Auðvitað er það galli, ef hann er svo líkur sænska fánanum, að torvelt sje að greina þá í sundur í fjarlægð. En ef stjarnan er sett í hann, þá hverfur hræðslan fyrir því að þeim verði blandað saman, hræðsla, sem mjer virðist ekki mjög rökstudd. En þótt stjarnan nægi til að gjöra fána vorn með öllu ólíkan sænska fánanum, þá er breytingin frá bláhvíta krossfánanum þó eigi meiri en svo, að þeir sem fest hafa trygð við hann, munu geta með sama hug rent augum til stjörnufánans. Ekki sje jeg að það geti verið fullgild ástæða á móti krossfánanum, þótt kontra-admiralar hafi stjörnu á líkum stað í merki sínu.

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) spurði hvort það væri meiningin að konungur legði samþykki sitt á allar þrjár fánagerðirnar. Því skal fljótt svarað, að það hefir aldrei verið meiningin. Hitt hefir verið meiningin, að hafa tillögurnar fleiri, svo reynt væri, án þess að stofna fánamálinu í hættu, að fá þá gerð, sem að líkindum er þjóðinni: geðþekkust. En þar sem jeg hefi lýst því yfir, að jeg muni ekki setja neina gerð á oddinn, þá sje jeg ekki annað en hægt væri, áður en jeg gjörði ákveðna tillögu til konungs, að vita hvort á hana yrði fallist eða eigi.

Háttv. þm. Eyf. (H. H.) spurði, og mun hafa ætlað að koma mjer með því í vanda, hvernig jeg ætlaði að fara að, og með hverri fánagerðinni jeg mundi mæla. Þessu get jeg ofurvel svarað. Bláhvíti fáninn stendur huga mínum næst, þá stjöruufáninn, en síst mundi jeg kjósa þrílita fánann, og ekki fyr en útsjeð væri um hinar gerðirnar.

Háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) mintist á, að þrílita fánanum svipaði til norska fánans. Sumir telja þetta meðmæli með honum, en jeg er ekki í þeirra tölu, sje ekki að það auki í nokkru fegurð hans.