13.08.1914
Sameinað þing: 9. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (2120)

130. mál, gjaldmiðill

Flutningsmaður (Sveinn Björnsson) :

Jeg leyfi mjer að segja að eins örfá orð út af einu atriði í ræðu hv. þm. N.-Ísaf. (Sk. Th.). Hann spurði hvort það væri meiningin með tillögunni, að gefa að eins Íslandsbanka heimild fyrir takmarkaðri lánsheimild. Tillagan er þannig orðuð, að valdstjórninni er veitt svo víðtækt umboð, að þess er vænst af henni, að hún sjái landinu fyrir nægilegum gjaldmiðli, svo sem nauðsyn krefur, og að hún gjöri ráðstafanir til þess, eftir því sem þörfin krefur, að þessi gjaldmiðill sé handbær.

Jeg tel sjálfsagt að stjórnin reyni, ef Íslandsbanki telur sjer fært að samþykkja það, sem má ske má vænta, að láta Landsbankann einnig njóta góðs af þessum seðlum. Má ef til vill líta svo á, að í till. felist einnig heimild til þess, að stjórnin reyni eitthvað í því efni.

Þar sem getið er um 100 kr. skírteini í till., þá er það að eins tekið til dæmis, en seðlarnir eru alls ekki bundnir við þetta form, ef stjórnin telur annað heppilegra. Það var rjett sem hv. þm. N. Ísaf. (Sk. Th.) talaði um, að till. væri samin í flýti. Það var ákveðið að slíta þinginu í kvöld, en málaleitunin barst mjer í hendur rjett fyrir fundinn. Hjer varð því annaðhvort að hrökkva eða stökkva, annaðhvort að láta málið liggja kyrt eða gjöra einhverjar ráðstafanir áður en fundurinn væri haldinn. Og það varð að ráði. Annars er þetta ákvæði um 100 kr. skírteinin ekki sett vegna flausturs. Fyrst og fremst er það eins og jeg sagði áðan, að eins tekið til dæmis, en alls ekki sett af því að búist sje við að tómir grósserar sjeu í landinu. En jafnvel þótt stjórnin væri bundin við þetta ákvæði, sem hún er ekki, þá væri það ekkert hættulegt, því að fyrir utan þessi væntanlegu skírteini, verða í veltu 3¼ milj. af seðlum Landsbankans og Íslandsbanka, og hygg jeg, að mjer sje óhætt að segja að meiri hlutinn af því sje í smáseðlum, þ. e. 5–10 kr. seðlum.

Jeg veit ekki, hvort hv. þm. þykir ástæða til að hafa stutt fundarhlje, til þess að íhuga betur till. og semja, ef til vill, brtt. við hana. (Hannes Hafstein: Það er engin ástæða til þess.) En annars býst jeg við því, ef mönnum þykir eitthvað athugavert við till., þá verði þeir fljótir að átta sig á því; það hefir líka reynslan sýnt, þar sem tvær brtt. eru þegar fram komnar.