22.07.1914
Neðri deild: 18. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (2139)

75. mál, sparisjóðir

Umboðsm. ráðh. (Kl. J.):

Háttv. framsögum. meiri hl. (Sv. B.) gat þess í ræðu sinni, að orðrómur um misfellur á rekstri sparisjóðanna myndi hafa borist til landsstjórnarinnar og orðið því valdandi, að stjórnin fór að íhuga þetta mál. Þetta er rétt og ekki rétt. Ástæðan til þess, að stjórnin fór að rannsaka þetta mál og lagði það fyrir síðasta þing, var aðallega sú, að stjórninni var fullkomlega kunnugt um vanrækslu og ýmiskonar misfellur á stjórn einstakra sparisjóða og hinsvegar hafði hún líka heyrt um einstakan sparisjóð, að miklar misfellur væri á stjórn hans, en beinar kærur hafa ekki komið.

Eg vildi aðeina geta þessa, úr því að háttv. framsögum. meiri hl. mintist á það.

Eg skal ekki fara mikið út í brt., en vil þó drepa lauslega á fáein atriði.

Viðvíkjandi fyrstu brt. um að fella í burtu orðið »hlutafé«, verð eg að segja líkt og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), að eg get ekki séð, að það sé á nokkurn hátt hættulegt þótt það standi. Eg hygg, að ekki þurfi að bera kvíðboga fyrir þessu fyrirkomulagi, því að nú sem stendur veit eg ekki til að neinn sparisjóður sé hluthafaeign. Eg veit um einn sparisjóð, sem var hluthafaeign, og var honum bezt stjórnað allra sparisjóða, sem eg þekki, vegna þess, að hluthafarnir sjálfir höfðu eftirlit með stjórninni. Að öllu samanlögðu hygg eg, að það sé betra, að sparisjóðir sé eign hluthafa, því að hluthafarnir hafa þá hvöt til þess að gæta þess að alt fari vel fram. En eina og eg sagði áðan, eru slíkir sparisjóðir ekki til, svo að hvað það snertir má standa á sama um þetta atriði.

Þá hefir verið talað um að fella burt 10. gr. frv. Það sjá nú víst allir, að ekki getur komið til mála að heimta að maður, sem vinnur kauplaust fyrir sparisjóð, setji tryggingu fyrir fé sjóðsins. En undireins og maðurinn fer að fá einhverja þóknun fyrir starfa sinn, þá er sjálfsagt að heimta af honum einhverja tryggingu. Tryggingin færi þá eftir því, hvað viðskiftamagn sjóðsins er mikið, og eðlilega því hærri, því meiri laun, sem starfsmaðurinn hefði. Það er altaf að verða meira og meira almenn sú skoðun, að nauðsyn beri til að leggja höft á löngun manna til að draga sér fé af sjóðum, sem þeim er trúað fyrir, eða leggja þá undir sig. En vitanlega er hér ókleift að inna af hendi tryggingu eins og tíðkast erlendis. Eg álít þess vegna að það sé langt frá því, að þessi brt. sé til bóta.

Ef felt verður úr frv. ákvæðið um takmörkun á víxillánum og sjálfskuldarábyrgarlánum í 13. gr., þá er opin leið til þess að verja því öllu til slíkra lána. Og það er hætt við að svo fari, því að þetta eru handhæg lán. Eg álít það mjög varhugavert að fella þetta ákvæði úr frv., því að það er viðurkent af öllum, sem skyn bera á þá hluti, að ábyrgðarlán eru hættulegustu lánin og víxillánin eru varhugaverð, nema altaf sé borgað eitthvað af. En sé þau framlengd afborgunarlaust í það óendanlega þá eru þau fult eins hættuleg og ábyrgðarlán. Þessa breytingu verð eg því að telja til verulegra skemda á frv. Háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) sagði, að ekki væri meiri trygging í fasteignalánum, er lánuð væri gegn 3. eða 4. veðrétti, en ábyrgðarlánum. Það er nú auðvitað undir því komið, hversu mikið hvílir á eftir 1. og 2. veðrétti. En annars hygg eg, að það standi í lögum hvers sparisjóða, að eigi megi lána út nema gegn l. og 2. veðrétti — og mér er kunnugt um, að bankarnir hér gera það ekki.

Brt. við 21. gr. get eg aðhylst. Það er engin ástæða til að þetta fé renni fremur í landssjóð en til einhverra þarfra fyrirtækja í héraðinu sjálfu, sem sparisjóðurinn liggur í. Tilætlun stjórnarinnar með þessu ákvæði var sú, að eðlilegt væri að fé sparisjóðanna rynni í landssjóð, ef þeir legðist niður, þar sem landssjóður samkvæmt frv. á að greiða laun eftirlitsmanna. Og ætti landssjóður þess utan að greiða eftirlitamanni ferðakostnað og dagpeninga, þá virðist fremur ástæða til þessa ákvæðis. Þetta vakti fyrir stjórninni, en samt sem áður finst mér rétt að aðhyllast þessa brt.

Þá kem eg að aðalatriðinu í þessu máli, sem mestum deilum hefir valdi, hvort eftirlitsmaður skuli vera einn við alla sjóðina, eða fleiri, hver á sínum stað. Um það var barist á þinginu í fyrra og um það er barist nú. Eg lít svo á, að verði ákvæði um eftirlitsmenn felt burt úr frv., þá sé eina gott að fella frv. alt.

Ef sérstakur eftirlitsmaður á að vera með hverjum sparisjóði, þá verður fyrirkomulagið hið sama og nú er, nema talsvert kostnaðarmeira. Það er sýnt skýrt fram á það í athugasemdum stjórnarinnar við frv. og eins í nefndaráliti meiri hl., hver þörf sé á því, að eftirlitsmaður sé einn með öllum sparisjóðum á landinu. Við það, sem þar er tekið fram, skal eg bæta því, að einn eftirlitamaður mundi geta séð við þeim galla, sem er á núverandi fyrirkomulagi, að óreiðumenn noti sparisjóðina þannig, að þeir taka fyrst lán í sparisjóðunum í sinni sveit, og þegar lánstraustið er þrotið þar, fara þeir í næsta sparisjóð og svo koll af kolli. Loks, þegar alt traust er þrotið út um landið, koma þeir til bankanna hér, og eiga ekkert nema botnlausar skuldir fyrir.

Þetta gæti ekki viðgengist ef eftirlitamaður væri einn. Hann myndi fljótt reka sig á sama nafnið víða í bókum sparisjóðanna og þá athuga, hvernig málum er varið. Eg hygg, að margir muni þekkja þessa dæmi og sjá nauðsynina á að varast slíka fjárglæframenn. Það hefir oft komið til tals, að nauðsynlegt væri, að bankarnir hér hefði samband sín á milli í þessum efnum og gæti séð, hvernig þessum hættulegu lánum er varið, en eg veit ekki, hvort ennþá hefir orðið úr slíkum samtökum, en æskilegt væri það.

Í öðru lagi get eg ekki skilið það, hvað háttv. þm. geta haft á móti því, að haft sé strangt eftirlit með þessum almenningsstofnunum. Sparisjóðirnir fara altaf vaxandi. Fé þeirra hefir vaxið um hundruð þúsunda. Og þegar á það er litið, að þetta fé hefir fátæk alþýða dregið saman með súrum sveita og lagt fyrir, þá skil eg ekki þennan hugsunarhátt háttv. þm., að vilja ekki vernda og tryggja þetta fé. Eg get heldur ekki skilið það, að þingmálafundir skuli fara að mótmæla því, að eftirlitið yrði slíkt, sem hér er farið fram á. Eru þeir svona hræddir við eftirlitið ? Maður freistast til að halda það.

Þá skal eg víkja nokkrum orðum að háttv. minni hluta nefndarinnar. Hann vill ekki hafa einn eftirlitsmann, nema með þeim sparisjóðum, sem »eigi« 100 þús. kr. Hvað meinar háttv. minni hluti með orðinu »eign« ? Er það varasjóður? Annað er ekki eign sparisjóðsins. En þá þarf heldur ekki neinn eftirlitsmann, því að enginn sparisjóður á landinu á nándarnærri 100 þús. kr. í varasjóði. (Bjarni Jónsson: Eign er sama sem innistæðufé). Nei, það er ekki það sama, en það getur verið, að það eigi að vera það sama, eins og var að skilja á orðum háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.). Innstæðuféð er ekki eign sparisjóðsins, heldur þeirra manna, sem inneign eiga í sparisjóðnum. Þegar af þessari ástæðu er ekki hægt að samþykkja breyt.till. En jafnvel þótt eign væri sama og innistæðufé, þá kæmi ekki nema 3–4 sparisjóðir á landinu undir þetta sérstaka eftirlit og það væri meiningarleysa. Skal eg svo ekki eyða frekari orðum að þessu, enda er eg óundirbúinn — kem hér inn í miðjar umræður og hefi ekki haft tækifæri til að kynna mér málið síðan í vor.

Út af orðum háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), um 13. gr. frumv. sbr. 17. gr., vil eg þó geta þess, að þetta ákvæði er sett til aukinnar tryggingar. Það er ekki ósanngjarnt að heimta það, að altaf sé fyrir hendi æði stór upphæð varasjóðs. Það eru mörg dæmi þess, að sparisjóðir hafa ekki getað greitt jafnvel smáupphæðir, þrátt fyrir það, þó stærri upphæðum hafi verið sagt upp með löglegum fyrirvara. Þegar nú dæmi eru til þessa, þá virðist það ekki ósanngjörn krafa, að altaf sé 8% af varasjóði fyrirliggjandi í handbæru fé, og jafnstór upphæð í ríkisskuldabréfum eða öðrum verðbréfum. Þess er krafist um allan heim, að bankar hafi — til aukinnar tryggingar — fyrirliggjandi ákveðna upphæð af auðseldum verðbréfum. Það má vera að þetta þyki nokkuð hart, en tilgangurinn er sá, að tryggingin sé svo góð, að menn þori að leggja fé sitt inn í þessar peningastofnanir.