24.07.1914
Neðri deild: 20. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Framsögum. minni hl. (Stefán Stefánsson):

Að þessu ákvæði, sem háttv. síðasti ræðumaður mintist á, er ekki slept í till. mínum, kemur til af þeirri einföldu ástæðu, að eg veit ekki til að mér eða öðrum hafi nokkurntíma dottið það í hug, að þurka það ákvæði út úr lögunum, að stjórnin skuli í samráði við dýralækni kveða á um það, hvaða baðlyf nota megi. Þetta er ein af frumreglum laganna, sem gengið hefir verið út frá að væri alveg sjálfsögð. Og þegar þessu er haldið, þá liggur nærri, að tiltaka einhvern vissan tíma, sem auglýsingar stjórnarinnar eiga að vera birtar. Það hafði eg gert í fyrri breyt.till. mínum, og áleit eg, að ekki mætti seinna vera en 1. júní til þess að hafa nógan tíma fyrir sér, enda hygg eg að stjórnarráðið ætti, eftir því sem tímar líða, að eiga hægt með að koma þeim svo snemma út. Það ætti ekki að vera vandasamt, þar sem dýralæknirinn er við hendina, og því treysti eg, að þessa verði gætt framvegis. Þegar auglýsingarnar eru komnar út um landið, þá er það ofur handhægt og umsvifalítið fyrir fjáreigendur að panta baðlyfin í þeirri verzlan, er þeir skifta við, og um borgunina fer þá auðvitað sem um semur. Þetta fyrirkomulag er talsvert vafningaminna og greiðfærara, en lögin gera nú ráð fyrir. Eg trúi ekki öðru en að háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) skilji þetta. (Eggert Pálsson: Nei). Hann er þá sá eini háttv. deildarmanna, sem ekki skilur það, því að öllum öðrum treysti eg til þess.