23.07.1914
Efri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (2149)

24. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Umboðsm. ráðherra (Kl. Jónsson) :

Jeg ætlaði einmitt að vekja athygli háttv. forseta á þessu atriði, en nú er það óþarft, eftir að hann hefir felt úrskurð á þann hátt, sem jeg tel rjettan og sjálfsagðan.

Úr því frv. þetta er komið fram, þá vildi jeg leyfa mjer að vekja athygli á einu atriði þess.

Jeg skal strax taka það fram, að jeg hefi ekkert að athuga við hækkun lágmarks sektarákvæðisins hjá háttv. nefnd, nje heldur það, að hún vill fá numin úr gildi lögin nr. 56 frá 30. júlí 1909. Það er ástæða til, að fá þau numin úr gildi, því þau vekja gremju útlendinga, eins og eðlilegt er, því þau eru ójafnaðarlög. Það sem jeg vildi vekja athygli háttv. nefndar á, er það, hvernig fara skuli með upptækan afla skipa. Það stendur hvergi berum orðum í frv. á þgskj.135. Í 2. gr. þess stendur að eins, að afli innanborðs skuli upptækur, og andvirði hans renna í landssjóð. Það er hvorki tekið fram í gildandi lögum nje í frv. þessu, hvernig eigi að útvega landssjóði andvirði þetta, hvort heldur eigi að selja aflann á opinberu söluþingi eða undir hendinni. Fram að 1907 mun það hafa verið undantekningarlaus regla, að afli og veiðarfæri væri selt við opinbert uppboð. En vorið 1907, fremur en vorið 1908, kom það í fyrsta sinn fyrir, að skipseiganda var leyft að kaupa upptækan afla af skipi sínu eftir mati óvilhallra manna. Það var frönsk fiskiskúta, sem hjer átti hlut að máli; hún hafði verið staðin að ólöglegum veiðum, því nær fullfermd fiski. Nú hagar því svo til hjá frönskum fiskiskútum, að allir hásetarnir eru meðeigendur í aflanum, en eigi ráða þeir hvar fiskað er. Þeir hefðu því orðið allhart úti, ef aflinn hefði verið gjörður hjer upptsekur og seldur. Var skipseiganda því, eftir tillögu franska ræðismannsins, sem þá var, leyft að kaupa aflann. Það má segja, að þetta hafi verið einskonar meðaumkunarráðstöfun, því þó þeir yrðu að kaupa hann fullu verði hjer, þá höfðu þeir mikið upp úr honum, með því að flytja hann til Frakklands og selja þar. Þetta var því hagur fyrir skipverja, en enginn halli fyrir landssjóð. Eftir þetta hefir svipuð sala nokkrum sinnum verið leyfð.

En um veiðarfærin hefir það að eins einu sinni komið fyrir, að nokkur hluti þeirra var seldur undir hendinni, og stóð þá alveg sjerstaklega á; annars hafa þau undantekningarlaust verið seld á uppboði.

Jeg skal játa það, að það getur stundum verið mikil ástæða til, að selja skipseigendum upptækan fisk þeirra eftir mati óvilhallra manna, einkum við Vestmanneyjar, þar sem oft getur orðið langur dráttur vegna storma og stórsjóa á því, að skipa fiskinum á land. Þetta getur skift sólarhringum, og á meðan verður skipið að liggja í háska, fyrir opnu hafi upp við land á ábyrgð landsstjórnarinnar. Það er ekki að tala um, að hægt sje að byrja á að skipa aflanum í land fyr en dómur hefir verið kveðinn upp, og þó öllu sje hraðað sem mest við málsreksturinn, getur svona farið. Það getur meira að segja komið fyrir, að þó skipið hafi komið inn á höfn í góðu veðri, þá sje komið ófært veður, þegar útkljáð er um málið. Skipstjórar halda því fram, að afla sínum sje skipað á land, ef hann er gjörður upptækur, undir eins eftir að dómur er fallinn, og mundu geta orðið ýmsir vafningar og erjur úr því, ef verulegur dráttur yrði á því, ekki síst ef eitthvert tjón yrði á skipinu sökum biðarinnar. Stjórnin hefir því stundum leyft skipseigendum að kaupa upptækan afla skips þeirra, þegar sjerstakar ástæður hafa verið fyrir hendi. Þetta á ekki heldur að geta verið óhagur fyrir landssjóð; fiskurinn mun síst verða metinn lægra en reynsla hefir sýnt, að fyrir hann fæst á opinberu uppboði. Aftur á móti gæti sala þessi stundum orðið til óhagnaðar fyrir landsbúa, og því hefir þetta sjaldan verið leyft hjer í Reykjavík.

Þetta þyrfti að athuga betur, áður en málið fer út úr þinginu; eins og frv. á þgskj. 135 er nú orðað, er það ógreinilegt, og ekkert fast ákveðið um það, hvernig hinn upptæka afla skuli selja. Það er alt öðru máli að gegna um ákvæðin í 2. gr. en í 3. gr. þar sem segir, að leggja megi löghald á skip, afla og veiðarfæri, og selja að undangengnu fjárnámi, til lúkningar sektum og kostnaði, eftir þeirri grein. Þar verður litið svo á, að sjálfsagt sje að selja þessa muni á opinberu uppboði. Þó margt mæli með því, að stjórninni sjeu gefnar nokkuð frjálsar hendur í þessu, þá er það allóþægilegt fyrir hana, og einatt erfitt að skera úr, hvað gjöra skuli, og skal jeg nefna dæmi þess. Það var í vor við Vestmanneyjar, þegar hinn alkunni Bürgermeister Mönckeberg hinn þýski var tekinn, sá sem síðar kærði yfir sjóráninu. Veður var hvast, og eftir tillögu sýslumanns fjekk hann afla sinn keyptan. Daginn eftir var tekinn franskur botnvörpungur; hann kom með sömu kröfu og þótti ekki hægt að neita honum, þegar hitt var nýgengið á undan. Rjett í sömu svifum var komið inn með sekan hollenskan botnvörpung, og varð að láta hann sæta sömu kjörum sem hina.

Þetta sýnir það, að málið getur oft verið óþægilegt viðureignar fyrir stjórnina; og jeg held að jeg geti talað fyrir munn hverrar stjórnar sem er, að hún mundi telja það þægilegast fyrir sig, að það væri fastákveðið í lögunum, að upptækan afla og veiðarfæri skyldi jafnan selja á opinberu uppboði. Hins vegar játa jeg þó, að það getur stundum komið hart niður, að enga undanþágu megi veita, einkum við Vestmanneyjar, þar sem langflest af brotum þessum eru tekin til meðferðar.

Jeg vil beina þessari athugasemd minni að háttv. nefnd, og jeg finn því meiri ástæðu til þess, þar sem svo vel vill til, að háttv. framsm. nefndarinnar (K. E.) er þessum málum langkunnugastur allra lögreglustjóra hjer á landi. Með beina brtt. vil jeg þó ekki koma fram að svo stöddu, af því jeg get ekki ráðgast um málið við hæstv. ráðherra. Það mun síðar gefast tækifæri til þess, ef svo sýnist.

Við önnur atriði hefi jeg ekkert að athuga. Jeg álít rjett, að hækka sektirnar; það hefir sýnt sig, að botnvörpungar hafa hingað til ekki verið mjög hræddir við þær; og það er því meiri ástæða til, að hækka sektalágmarkið, þar sem lögreglustjórar eru að jafnaði fremur hneigðir til að halda sjer að lágmarkinu — að vísu ekki fremur í þessum málum en öðrum — þegar ekki er um ítrekað brot að ræða, eða sakir óvenjulega miklar.

Frv. (þgskj. 39) tekið aftur af flutningsmanni og nefndinni.