15.07.1914
Efri deild: 9. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (2164)

51. mál, vegir

Flutningsm. (Kristinn Daníelsson); Jeg skal ekki vera langorður um þetta mál á þessu fyrsta stigi þess hjer í deildinni. Eins og háttv. þingmenn geta sjeð af þingtíðindunum, var þetta frumvarp borið fram í Nd. á síðasta þingi, en fjell þá með fárra atkvæða mun. Það mundi ekki hafa fallið, ef málið hefði þá horft við eins og nú, og vona jeg að nú viðurkenni allir, að frumvarpið er að öllu leyti sanngjarnt. Allir hljóta að sjá, að það er afarbrýn þörf, að vegurinn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur sje sem bestur, því að það er hinn langfjölfarnasti vegur á landinu. En sýslufjelögunum, sem hlut eiga að máli, er ofvaxið að halda honum svo við sem skyldi. Nú sem stendur er hann alófær á mörgum tímum ársins, enda heyrast stöðugt endalausar kvartanir um þennan veg.

Sýslufjelögin hafa hvað eftir annað fleygt út nokkrum hundruðum króna til viðgjörðar á honum, en þeim peningum hefir bókstaflega verið fleygt í forina. Sýslufjelögin hafa og í mörg önnur horn að líta; nú er t. d. byrjað að leggja veg suður í Grindavík. Sýslunefnd Kjósarsýslu hefir jafnvel eigi sjeð sjer annað fært en að grípa til þess óyndisúrræðis, að nema sinn kafla af veginum úr tölu sýsluvega, enda er hann mjög lítið notaður af sýslubúum.

Um Gullbringusýslubúa er nokkuð öðru máli að gegna; þeir eiga auðvitað leið um þennan veg, er þeir fara til Reykjavíkur, en þó er vegurinn aðallega notaður af Hafnfirðingum og Reykvíkingum. — Sem sagt, í fyrra vantaði ekki nema herslumuninn, að frumvarpið yrði samþykt í Nd., en nú er þörfin miklu brýnni, eftir að tugir sjálfrenninga eru farnir að bruna um veginn dagsdaglega. Jeg vona því að háttv. deild taki vel í þetta mál, og vil jeg leyfa mjer að leggja til, að fimm manna nefnd verði skipuð til þess að íhuga það.