27.07.1914
Efri deild: 19. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

51. mál, vegir

Karl Einarsson :

Þess skal getið út af orðum hv. þm. Ísf. (S. St.), að álits hreppsnefndarinnar um þetta mál hefir ekki verið formlega leitað, vegna þess, að það var alkunnugt, að hún var sammála sýslunefndinni. Jeg tók það líka fram áðan, að enginn væri nú mótfallinn þessari breytingu í Vestmannaeyjum. Jeg veit ekki hvernig á því hefir staðið, að þetta mál var ekki borið fram á þingi í fyrra, en líkast til hefir það orsakast af því, að hv. þáverandi þm. Vestm. (Jón Magn.)

hafði svo mörg mál önnur að bera fram fyrir þeirra hönd.

Í Vestmannaeyjum hagar nú orðið til líkt og í kaupstað. Eyjarskeggjar eru nú um 1800, og fleiri þó á vertíðinni. Jeg get því ekki sjeð, að mótbárur hv. þm. Ísf. (S. St.) hafi við nein rök að styðjast. Jeg get ábyrgst honum að hreppsnefndin er málinu ekki mótfallin, og virðist því sjálfsagt, að það mæti ekki mótstöðu hjer.