10.08.1914
Efri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (2192)

31. mál, þingsköp Alþingis

Sigurður Stefánsson:

Jeg ímynda mjer að deildin geti verið þakklát háttv. 6. kgk. (G. B.) fyrir upplýsingar hans og athugasemdir. Það dylst víst engum, að flest eða öll þau atriði, sem hann tók fram, eru athugaverð, og vona jeg að stjórnin taki þau til greina.

Það er svo um þingsköp sem önnur og, að það skiftir ekki eins miklu hvernig þau eru orðuð, eins og hitt, hvernig þau eru notuð. Þegar kemur til vinnubragða þingsins, þá kemur fyrst og fremst til greina sú samviskusemi og ábyrgðartilkynning fyrir því, að leysa starf sitt vei af hendi, sem þarf að vera vakandi í hvers manns brjósti.

Háttv. 6. kgk. (G. B.) benti á, að það bólaði á því í vinnubrögðum þingsins, að háttv. neðri deild hjeldi málunum svo lengi hjá sjer, að þessi deild hefði engan tíma til að athuga þau vel og vandlega; nefni jeg sjerstaklega til fjárlögin. Þetta vil jeg undirstrika með svörtu stryki, því að þessi sorglegu tilfelli í þingsögunni aukast ár frá ári. Jú, okkur gefst færi á að hlusta á umræður málanna í háttv. neðri deild þegar annir hindra ekki, og við fáum að sjá brtt., sem þar rignir niður; en að við fáum að vinna að málunum sem sjerstök deild og á þann veg, sem til er ætlast, það er nú farið að verða af ærið skornum skamti með mörg þeirra. Þetta er ákaflega skaðlegt fyrir löggjafarstarf þingsins. Við höfum tvískift þing, til þess að málin sjeu sem best athuguð. En með þeim vinnubrögðum, sem hafa átt sjer stað nú og í fyrra, er tvískiftingin orðin þýðingarlítil og því nær að eins í orði kveðnu,. þar sem efri deild er svift tíma og tækifæri til að athuga höfuðmálin, sem fyrirþinginu liggja. Afleiðingarnar af þessu eru þegar farnar að koma í ljós. Aldrei hafa verið nándar nærri jafnmikil brögð. að því, eins og á þessu þingi, að nýsömdum lögum sje umturnað og breytt. Allur þorrinn af hinum mörgu frumvörpum, sem. inn í þing hefir verið hrúgað í ár, er um breytingar á nýsamþyktum lögum, og meðal þeirra mörg um breytingar á lögum frá í fyrra.

Þetta er líka ofur eðlilegt eins og vinnubrögðum þingsins er háttað. Fyrst er nú hrúgað urmul af frumvörpum inn í neðri deild, oft lítt hugsuðum; svo eru þau. að jafnaði sett í nefnd; en nefndarstörfum er þannig háttað, að langmest af þeim hleðst á einstaka menn. Mjer er sagt að um 500% af skrifarastörfum í nefndum í háttv. neðri deild hafi lent á einum manni. Þegar vinnubrögðin eru þannig, þá verður lítið gagn af þingmannafjöldanum; á suma. þingmenn hlaðast svo mikil störf, að vart er hugsandi að þeir geti leyst þau vel af hendi, að minsta kosti ekki jafnvel og ef jafnara væri niður skift, og á meðan ganga svo aðrir með hendur í vösum. Tvískiftun þingsins er að verða þýðingarlaus, ef þessu fer fram. Jeg skal færa það til dæmis, að stjórnarskrárfrumvarpið er enn ekki komið á dagskrá hjer í deild, meira að segja umræðum um það er enn ekki lokið í neðri deild, og nú er einn einasti dagur eftir af hinum fyrirskipaða þingtíma, og þetta er þó málið, sem þingið var hvatt saman til að fjalla um. Það má ef til vill segja, að eigi sje mjög hættulegt þótt þetta mál hafi dregist, því að allir muni samhuga um að samþykkja frumvarpið óbreytt. En það er annað mál, sem ekki er lengra komið áleiðis, mál, sem snertir helgustu rjettindi og skyldur hvers kjósanda í landinu; jeg á þar við kosningalögin. Þau fáum við ekki hingað í deildina fyr en eftir að hinn löglegi þingtími er úti. Um þetta mál er hinn mesti ágreiningur í háttv. neðri deild og það komið þar í glundroða; og þó á að útkljá það eins og óskift þing væri; því að það er auðsætt, að þessari deild gefst hvorki nægur kostur á að athuga það og ræða, nje koma með breytingar á því, og er því í rauninni ekki um annað að gjöra en að samþykkja það óbreytt eins og það er úr garði gjört þaðan, þótt deildin sæi að annað gæti betur farið. Stjórnarskrárbreytingin hefir það nefnilega í för með sjer, að kosningalagabreytingin verður að vera samferða. Er þetta viðunandi ástand? Jeg segi nei; það er ófært. Þessi aðferð háttv. Nd. lýsir stöku virðingarleysi við annan aðilja löggjafarstarfsins, efri deild; en hún lýsir líka stöku skeytingarleysi um það, að leysa löggjafarstarfið sem best af hendi, og kæruleysi í því, að athuga vandamálin sem best að unt er, þar sem hún útilokar aðra þingdeildina frá því, að geta tekið verulegan þátt í meðferð margra merkustu málanna. Afleiðingin af þessum vinnubrögðum er sú, að megninu af þingtímanum og stórfje er kastað á glæ. Það hefði ekkert verið hægra fyrir þingið en að vera búið að afgreiða stjórnarskrána, fánamálið og kosningarlögin fyrir 2–3 vikum síðan. Og að því búnu hefði störfum þingsins getað verið lokið og fje landsins þannig sparað um tugi þúsunda króna, sem nú er eytt að mestu í helberan hjegóma. Hvernig halda þingmenn að kjósendur munu taka þessu? Eða treysta þeir því, að þeir geti leitt þá með sjer sofandi, fljótandi að feigðarósi ? Hvernig halda háttvirtir þingmenn að verði litið á þetta athæfi? Jeg leyfi mjer að segja hjer, og stend við það, að þetta þing hefir því nær setið yfir helberum hjegóma, en vanrækt þau málin, sem það var kallað saman til að afgreiða og það merkustu og stærstu löggjafarmálin, og því verra er þetta afspurnar, þar sem nú er slík tíð, að við höfum ekki sjeð annað fært en hefta lögmælt gjöld til framfarafyrirtækja í landinu.

Vjer tölum sætt og ísmeigilega við kjósendurna, þegar vjer erum að reyna að fá þá til að kjósa oss á þing; þá gjörumst vjer talsmenn sparnaðarins, lofum því, að vera ekki með bitlingum eða óþörfum fjárveitingum, ekki fjölga embættum, berjast fyrir afnámi allra eftirlauna o. s. frv., eftir því sem fólkinu fellur best í geð. Ómurinn af þessu berst með þingmálafundargjörðunum inn í þingið. En þegar á þingið er komið, þá er eins og öllu sje gleymt; þá er eins og mest sje hugsað um að sitja sem lengst á þingi, þótt yfir tómum hjegóma sje. Þá er ekki horft í það, þótt þingið kosti fram undir þúsund krónur á dag. Og að þessu sinni hefir lengt verið setið yfir málum, sem þjóðin hefði verið alveg eins bætt með, að ekki hefði verið minst á einu orði. Þetta tala jeg ekki frá sjónarmiði neins sjerstaks flokks; hjer eigum við allir óskift mál. Þetta sleifarlag, sem jeg hefi vítt hjer, hefir farið mjög vaxandi síðari árin, einmitt síðan við fengum endurskoðuð og fullkomnari þingsköp. Á meðan við höfðum ófullkomnari þingsköp, bar minna á þessu; þetta sýnir, að það er minna undir því komið, hvernig lögin eru, en því, hvernig á þeim er haldið.

Jeg sje ekki betur en með þessum vinnubrögðum hljóti þingið að glata virðingu sinni. Það er sorgleg tilhugsun, ef svo fer að þingið, sem á að vera augasteinn þjóðarinnar, glatar svo virðingu sinni, að það fái þann vitnisburð hjá henni, að það sje ekki landsins gagn, landsins sómi, landsins heill, eins og það á að vera, heldar landplága.

Jeg skal svo að endingu víkja aftur að tillögum háttv. framsögum. (G. B.). Þær eru allar á góðum rökum bygðar. En það, sem jeg vil leggja mesta áherslu á, er að nauðsyn er að sett sje í þingsköpin ákvæði um það, að hvorug deildin megi liggja á málum til þingloka. Það er þýðingarlaust að hafa tvískift þing, ef sá óvani getur haldist, að annari deildinni gefist enginn kostur á að athuga hin mestu velferðarmál og segja álit sitt um þau, heldur eigi hún ekki annars úrkosta en segja já við öllu, sem að henni er rjett, eða þá fella málið.

Það sjest á hinum sífeldu breytingum á lögum, að eitthvað meira en lítið muni vera athugavert við vinnubrögð þingsins, og mun það ekki síst vera þetta, sem jeg hefi nú talað um. Vil jeg því í viðbót við hið marga og góða sem háttv. framsögumaður (G. B.) tók fram, taka það fram, að nauðsynlegt er að reisa skorður við því í þingsköpunum, að önnur deildin sje ekki fyrir borð borin af hinni með skeytingarleysi, ljettúð og óverjandi vinnubrögðum í henni.