07.08.1914
Efri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (2193)

89. mál, friðun héra

Steingr. Jónsson; Jeg ætla mjer ekki að svara hinni löngu ræðu hv. 5. kgk. (B. Þ.), en vil aðeins minnast með örfáum orðum á brtt. á þgskj. 366. Hinn hv. þm. mælti fram með brtt. á þá leið, að 20 kr. væri óhæfilega há sekt, ef hundur dræpi hjera, og hjelt hann því fram, að eigandi hundsins væri að sjálfsögðu skyldur til þess að gjalda sektina. En í frv, stendur, að hver sá, er veiðir eða drepur hjera, þ. e. hver sá, sem viljandi drepur hjera, skuli greiða 20 kr. sekt. Hitt kemur ekki til mála, að hundeigendur verði skyldir til að greiða sekt, þó að hundar þeirra drepi hjera án þeirra tilhlutunar. Enginn verður sektaður, þó að hundur hans drepi friðaðan fugl, og sama máli gegnir auðvitað um hjerana. (B. Þ.:

Það má siga hundum á hjera). Það er satt, og auðvitað gæti sektarákvæðið komið til greina, ef einhver hjeldi hunda beinlínis til hjeradráps. En hins vegar held jeg þó, að jafnvel hinir svonefndu hjerahundar drepi ekki hjerana. Nei, sektarákvæðin þurfa að vera há, ef lögin eiga að koma að gagni. Og það vil jeg líka leyfa mjer að benda á, að verðmæti hjeranna er áreiðanlega talsvert meira en hv. 5. kgk. (B. Þ.) vill vera láta. Ef 4 pd. af kjöti fást af hverjum hjera og skinnið er þar að auki nokkurs virði, þá er hjerinn áreiðanlega 1½–2 kr. virði eftir kjötverði hjer. Hvernig á því stendur að færeyskir hjerar eru hjer svo ódýrir, veit jeg ekki.

Annars hygg jeg þarflaust að svara hinni löngu ræðu hins hv. þm. Það er ekki nema gott, að það sýni sig, að menn geta líka tekið undir sig spretti hjer í deildinni um þetta hjeramál. Og þar að auki verð jeg að geta þess, að hv. þm. sannfærði mig um það, sem hann ekki vildi sannfæra mig um. Jeg var upphaflega í dálitlum vafa um þetta mál, en hann sýndi ljóslega fram á, að talsvert mikið gagn má hafa af hjerunum, og auk þess mundu menn framvegis geta haft talsvert upp úr að leigja veiðirjettinn á jörðum sínum. Og ekki held jeg, að það komi til mála, að menn verði siðlausari af hjeradrápi. Yfir höfuð voru orð hans um skaðsemi hjeranna altof sterk. Fullyrðing hans, að nú ættu menn að velja á milli hjeranna annarsvegar og sauðfjárræktar og skógræktar hinsvegar, nær engri átt.

Hjer er altaf verið að tala um þessar miljónir af hjerum, sem fylli landið. En þetta er tómur misskilningur. Í betri löndum verður að friða hjerana til þess að þeir eyðist ekki. Og svo er altaf verið að tala um þessa græðireiti, og að hjerarnir muni eyðileggja þá og allakálgarða í landinu. En hjer, þar sem hið ræktaða land er svo lítið, er engin hætta. Hjer er aðeins l% ræktað land, og það ætti að vera hægt að verja fyrir ágangi hjeranna. Og menn skulu ekki halda, að veturnir hjer eyði ekki hjerunum. Þingmaðurinn endaði ræðu sína með nokkurskonar ásökun til þingmanna um að þeir væru gjarnir á að flaustra málunum. Jeg vil ekki taka þetta til mín. Jeg vil svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál, og mun því ekki tala meira að sinni.