06.08.1914
Efri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í B-deild Alþingistíðinda. (2195)

55. mál, vörutollur

Steingrímur Jónsson :

Hv. 2. þm. G.-K. (Kr. D.) viðurkendi, að breytingar á lögum þessum mundu baka innheimtumönnunum erfiðleika fyrst í stað.

Þetta er töluvert þýðingarmikil játning, af því svo lítur út, sem látlaust eigi að halda áfram að breyta þeim. Þau voru samin á aukaþinginu 1912. En strax á þinginu 1913 var þeim breytt, og nú 1914 á enn af nýju að fara að breyta þeim. Svo liggur fyrir samkvæmt fyrirmælum laganna sjálfra, gagngjörð endurskoðun þeirra á þinginu 1915, nema þau hætti að gilda. Það er varla að furða, þótt vjer innheimtumennirnir eigum örðugt með, að setja oss inn í allar þessar breytingar, og óðara en vjer förum að venjast við breytingarnar, og jafnvel fyrri, koma aðrar nýjar. Jeg skal, til dæmis upp á hvað örðugt er að fylgja með, nefna það, að í fyrra þótti það óhjákvæmilegt að taka striga og mottur upp í 2. flokk, og varð harður bardagi um það. Nú vill frv. láta fella þetta aftur úr honum. Takist það, er ekkert líklegra en að aftur verði háður bardagi 1915 um að koma því inn í þennan flokk. Jeg veit ekki hvað getur ruglað innheimtumenn, ef það er ekki þetta, að eiga að heimta eitt árið krónutoll at sömu vörunni, en hitt árið 25 aura.

Um segldúk færi svo, að 1914 er honum skipað í 2. flokk og goldnir 25 aurar af hverjum 50 kg., en 1915 ætti að greiða af honum fjórfalt hærri toll eftir frv.

Verði tillögur nefndarinnar ekki samþyktar, tel jeg rjettast, að frv. sje felt.