14.07.1914
Neðri deild: 11. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

4. mál, mæling og skrásetning lóða

Bjarni Jónsson:

Það var tvent, sem eg vildi benda á. Í fyrsta lagi það, hve greiðlega málefni Reykjavíkur ganga fram hér í deildinni. Það sannar það, sem eg sagði um daginn, að hér er ekki skortur á mönnum, sem vita hvers Reykjavík þarf, enda á svo að vera. Hitt, sem eg vildi benda nefndinni á, er það, að eitt orðatiltæki á bls. 2 í nefndarálitinu er dálítið óljóst fyrir mér. Þar er sagt, að vitnum sé skylt að mæta fyrir merkjadómi, en það er ekki til tekið, hvort þeir eiga að mæta þar vinum eða óvinum, eða hvers konar þjóðir það eru, sem þeir eiga að »mæta« þar. Eg efa það ekki, að háttv. nefnd muni hafa skýrt þetta fyrir 3. umr., því að eg hygg, að hún hafi það á valdi sínu.