03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

120. mál, stjórnarskrá

Guðmundur Hannesson:

Úr því að það er leyfilegt nú, að ræða málið nokkuð í heild sinni, þá vildi eg segja nokkur orð.

Mikið orð hefir verið gert á því, hversu nauðsynleg þessi breyting á stjórnarskránni sé, og hversu miklar réttarbætur hún veiti. Eg fyrir mitt leyti get nú ekki betur séð, en að frumvarpið sé fremur lélegt. Mér liggur við að segja, að aðalbreytingarnar í því sé hugsunarlítil eftiröpun erlendra fordæma. Eg get heldur ekki séð betur, en að meiri hluta breytinganna sé svo farið, að enga brýna nauðsyn bar til þeirra í svipinn. Hins vegar eru margir helztu gallarnir á stjórnarfari voru — og þeir mjög tilfinnanlegir — óbreyttir eftir sem áður.

Eg skal nú í örfáum orðum minnast nokkuð á helztu breytingarnar.

Fyrst er þá afnám konungkjörnu þingmannanna. Nálega allir, sem á það atriði hafa minst, hafa talið það nauðsynlega framför og mikla réttarbót. Eg fyrir mitt leyti tel það vafasamt. Þeir eru nú kjörnir af stjórn, sem styðst við meiri hluta þingsins, sem aftur styðst við meiri hluta þjóðarinnar. Það hefði auðveldlega mátt haga svo til, að þeir ætti eigi lengur setu en stjórnin, sem skipar þá. Engin ástæða til að vantreysta því, að stjórnin nefndi til þessa færa menn, og væri þetta sennilega heppilegt til þess að gefa stjórnarskútunni dálitla seglfestu, svo að hún ylti síður — af tilviljun einni. Því svo er vant að vera við stjórnarskifti, að þá slæðast ýmsir með í hópinn, sem ekki reynast tryggir síðar meir.

Annað atriðið er fjölgun kjósenda. Nú á að veita nálega öllum sem komnir eru til vits og ára þennan kynlega rétt, kosningarréttinn, þennan rétt, sem gerir alla jafna, hversu ólíkir sem þeir eru og gefur Jesú eitt atkvæði og Júdasi eitt. Eg held að hyggilegra hefði verið að löggjöfin hefði beðið eftir brýnni nauðsyn og einróma kröfum um það. Eg veit, að krafan er hvorki rík né þörfin brýn, þegar um þá tvo flokka er að ræða, sem nú á aðallega að bæta við: verkamenn og kvenfólk. Í þúsund ár hafa nú tveir flokkar stjórnað þessu landi: bændur og mentamenn. Nú bjóðast þessir flokkar til þess, mikið til af sjálfsdáðum, að skila af sér stjórninni í hendur verkamönnum og kvenfólki. Eg vantreysti þeim ekki, en brýna nauðsyn sé eg ekki til þessa, nú sem stendur.

Þriðja breytingin er sú (21. gr.), að lög um breyting á sambandi Íslands og Danmerkur skuli borin undir atkvæði kjósenda. Þetta er framför, og svo er líka um nokkrar aðrar smærri breytingar.

En þá er að tala um þær þarfir, sem ekki er bætt úr með þessu frumvarpi. — Þegar vér fengum þingræðið, þóttust menn alment hafa himin höndum tekið. Eg spáði því þá, að það myndi sýna sig, að það hefði mikla galla í för með sér, og það er nú þegar farið að koma tilfinnanlega í ljós. Þegar eina eða tveggja atkvæða munur á þingflokkum er nóg til þess, að fá einum flokki öll völd í hendur, fé og mannvirðingar, yfirleitt flest, sem menn frekast girnast, þá hlýtur slíkt að skapa flokkadeilur og innanlandsstyrjöld. Blöðin verða að flokkablöðum, harðvítugustu málflutningsblöð, sem ýmist lasta eða lofa alt, sem stjórnin gerir. Úr þessu er ekki að neinu bætt, og eg skal ekki áfella neinn fyrir það, þótt það sé ekki gert. Erlendis hafa þær tilraunir, sem gerðar hafa verið í þá átt, reynst mjög erfiðar og ekki fundist þau ráð, er dygði.

Þá er æðsta stjórnin í landinu. Oft hafa heyrst raddir um það, að eitthvað sé bogið við fyrirkomulagið, sem nú er. Eitt blaðið stakk upp á því nýlega, að fjölga ráðherrum. Hafa þá þrjá, sinn úr hverjum flokki.

Mönnum dettur svo margt ólíklegt í hug — eg vil ekki segja hyggilegt. Frumvarpið gerir ráð fyrir því, að fjölga megi ráðherrum með lögum, en annað hefir mönnum ekki hugkvæmst í því efni til umbóta. Þó mætti ætla, að fleira gæti komið til greina.

Afleiðingin af öllu þessu er sú, að stjórnarfar vort er alt á hverfanda hveli. Nú höfum vér haft 4 sinnum stjórnarskifti á 6 árum. Þessi tíðu stjórnarskifti geta í mínum augum haft mjög svo varasamar afleiðingar. Það er við búið, að þeir, sem taka við stjórn, sé oftast óæfðir, og þeim hlýtur að veita starfið erfitt í byrjun, hvort sem er að tala um einn ráðherra eða fleiri. Það má búast við, að svo og svo mikið af stjórnartímanum gangi í það að læra að stjórna og vinna hversdaga störfin. Þjóðin hefir þá sífeldar áhyggjur út af stjórninni, rétt eins og læknir, sem þarf að vakna oft á nóttu til að sinna sjúklingi. Vafalaust mætti ráða einhverja bót á þessu. Auðvitað er enginn efi á því, að þjóðin á að geta steypt þeirri stjórn, sem hún vill ekki hafa. En þótt ekki væri gerð önnur breyting en sú t. d., að kjósa ekki nema einn þriðjung þingsins í einu, þá væri það að minni hyggju stór bót frá því, sem nú er. Nú getur eitt lítið atvik, ein vel skrifuð blaðagrein, gert byltingu og faraldur út um alt land. Það getur orðið til gagns, en það getur líka ekki siður orðið til ógagna. En með þessu væri girt fyrir það, að tilviljun ein verkaði í svipinn á fleiri en 1/3 kjördæmanna, eða kjósendanna.

Eg hefi nefnt þetta að eins til dæmis um það, að það er margt og tilfinnanlegt, sem enn er ábótavant í þessu frumvarpi.

Mér þætti það ekki ólíklegt, að þótt þetta frumvarp næði fram að ganga, þá ræki brátt að því, að aftur þyrfti að breyta stjórnarskránni. Og þá er aðgætandi, að enn stendur óhaggað ákvæðið um það, að til þess þurfi þingrof og þar af leiðandi aukaþing — ákvæði, sem gerir breytingar á stjórnarskránni bæði dýrar og erfiðar. Eg álít þetta illa farið. Það ætti að nægja, að láta nýjar kosningar fara fram, og þegar breyting er gerð, gæti eg trúað að það væri til batnaðar, að ekki væri breytt nema einni grein í senn. Þegar mörgum er breytt í einu, þá verður það til þess, að kjósendur fara í hrossakaup við sjálfa sig, þannig, að þegar ein breytingin þykir góð, þá eru hinar látnar fljóta með.

Eg hefi viljað taka þetta fram til þess, að það sæist, að eg álít ekki allar breytingarnar bráðnauðsynlegar, og get fyrir mitt leyti ekki skoðað frumvarpið sem nokkurs konar »Brama«, sem bæti öll vor mein, eins og svo margir virðast hafa ætlað. Eigi að síður mun eg, eftir því sem nú er komið, greiða atkvæði með því, að það sé samþykt.