15.07.1914
Neðri deild: 12. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

16. mál, beitutekja

Framsögum. meiri hl. (Matthías Ólafsson):

Ekki veit eg hvaðan háttv. minna hluta kemur sú vizka, að einn mótorbátur hafi brotið lögin. Eg veit til þess, að lögin hafa verið, margbrotin. Og ef það á að vera mitt hlutverk að mæla bót yfirgangi ránsmanna, mundi eg leggja niður þá stöðu, sem eg hefi nú, því að slíkt stríðir á móti samvizku minni. Það er afar kynlegt hjá háttv. minni hluta, að halda því fram, að hér sé verið að íþyngja sjómannastéttinni. Hér er um sömu stéttina að ræða, sjómenn andspænis sjómönnum.

Í nefndaráliti háttv. minni hluta er kveðið svo að orði, að viðkomendur sé nægilega trygðir með ákvæðum 3. gr. núgildandi laga. Þar er þó ekkert sagt um það, hvað við liggi, ef lögin eru brotin. Hér er um alveg sama að ræða sem ef eg kastaði peningi út um glugga og segði, að enginn mætti taka hann upp að viðlagðri refsingu, án þess að tiltaka, í hverju sú refsing væri fólgin.

Eg vona, að háttv. minni hluti verði minni hluti, ekki aðeins hér í deildinni, heldur og í öllu voru þjóðfélagi, ella mætti telja réttarmeðvitund þjóðar vorrar sljófgaða.