06.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

10. mál, afnám fátækratíundar

Flutningsm. (Jóhann Eyjólfsson) :

Þetta lagafrumvarp, sem hér er um að ræða, er stutt, en það felst samt í því mikil réttarbót og mikið hagræði. Eftir núgildandi lögum er fátækratíundargjald af lausafé mismunandi hátt, eftir því, hvað tíundin er há. Sá, sem er svo heppinn að vera svo vel efnum búinn, að hann geti tíundað 5 hundruð eða meira (það sem kallað var að vera í skiftitíund), hann á að greiða tíundargjald í sveitarsjóð 3/10 álnar af hundraði hverju, en sá, sem er nú svo óheppinn að vera svo fátækur, að hann geti ekki tíundað svo mikið (að hann sé það sem kallað er að vera í öreigatíund), hann skal greiða 9/l0 álnar af hundraði hverju. Þetta er sjáanlega mjög ranglátt, að öreigi, eða sárfátækur maður, skuli greiða þrisvar sinnum hærri skatt af hverri krónu en efnamaður, eða auðmaðurinn, af hverri sinni krónu.

Áður en sóknargjaldalögunum var breytt 1909, þá horfði þetta dálítið öðru vísi við, því að þá vóru þeir, sem vóru í öreigatíund, lausir við að borga tíundargjald til prests og kirkju, en þar varð sú jafnaðarkenning ráðandi að leggja jafnt gjald á alla, fátæka og ríka. Þá myndaðist nýr skattur á alla þá, sem vóru í öreigatíund, en létti á öllum þeim, sem vóru efnaðir, og eftir því meira, sem hann var ríkari, þ. e. tíundaði meira. En þá gleymdist að laga fátækratíundargjaldið hjá þeim, sem það lá óeðlilega hátt á. Þetta fyrirkomulag, að öreiginn beri þrisvar sinnum hærra gjald en ríki maðurinn, er svo óeðlilegt og ranglátt, að eg hygg, að þetta muni hvergi eiga sér stað í heiminum, nema hjá oss, á Íslandi. Eg hygg nú reyndar, að víða sé hætt að taka tillit til fátækratíundarinnar við niðurjöfnun útsvara, að minsta kosti er það svo á mörgum stöðum þar sem eg þekki til, beinlínis af því, að það eru álitin óforsvaranleg rangindi, að taka tillit til þeirra. Útsvörum er þá jafnað niður bara með aukaútsvörum; tíundirnar eru auðvitað reiknaðar út á eftir og dregnar frá aðalupphæðinni og settar í sérstakan tekjulið, en þetta er einungis gert til að gera útsvarsskýrsluna formlega og löglega.

Það er talsvert verk fyrir oddvitana að reikna út tíundirnar, því að oft hafa þeir nóg annað að gera, og sumir eru ekki eins æfðir í reikningastörfum og þyrfti, og það er líka mikið verk við endurskoðunina frá því fyrsta til hins síðasta.

Þegar maður lítur nú á það, að lögin eru afar-ranglát, ef þau eru starfrækt samkvæmt bókstafnum, og að þau kosta mikla vinnu og mikinn tíma um land alt, þá er það það allra vægasta, sem maður getur sagt, að þau sé óþörf, og að það beri að afnema þau tafarlaust.

Mál þetta var borið undir þingmálafundi Mýrasýslu, og var það einróma álit þar, að þessum lögum ætti að breyta samkvæmt því, sem hér er gert. Eg treysti því, að sama réttlætistilfinning muni eiga heima í fleiri héruðum landsins, og eins, og ekki síður, hér í þinginu. Eg vil því leyfa mér að leggja til, að það verði kosin 5 manna nefnd í málið að þessari umræðu lokinni.