06.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

10. mál, afnám fátækratíundar

Pétur Jónsson:

Eg hefi í rauninn lítið að segja, því að háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir stutt málið á þá leið að eg hefi litlu þar við að bæta.

Eg er honum sammála um að þetta litla frv. eigi fram að ganga. Í rauninni er eg í vandræðum með þetta nefndarálit því að eg er að vissu leyti samdóma báðum pörtum nefndarinnar. Það er að skilja, eg er samdóma meiri hlutanum um það, að heppilegt sé að stjórnin leggi skattamál landsins sem fyrst fyrir alþingi, og þá ekki svo bráðnauðsynlegt að frv. nái fram að ganga nú. En aftur á móti er það rétt, sem farið er fram á í frv., og vil eg því ekki setja fótinn fyrir það.

Eg hefi talsverða reynslu af að jafna niður aukaútsvörum, og mér er það í minni, að vér létum tíundirnar hafa sama sem engin áhrif á útsvarsheildina. Ef fátækur maður býr á tíundarhárri jörð, þá er venjulega ekki lagt hátt útsvar á hann, fyrir það, heldur munað til á aukaútsvarinu, það sem tíundirnar eru óþyrmilegar að tiltölu. Sama er um þá menn, sem ekki ná skiftitíund. Þannig er hliðrað til, ef tíundirnar eru í öfugu hlutfalli við grundvöll aukaútsvarsins efni og ástæður. Að öðrum kosti gera tíundargjöldin til fátækra ójöfnuð.

Þó að eg sé samþykkur meiri hlutanum um að skora á stjórnina, að leggja skattamálin fyrir þingið sem fyrst, mun eg greiða frumv. atkvæði, og get þess vegna ekki verið með hinni rökstuddu dagakrá.